26.5.2012 21:00

Laugardagur 26. 05. 12

Helgi Seljan Kastljósmaður veittist í dag að Gretu Salóme Stefánsdóttur sem keppir í kvöld fyrir Ísland á vegum RÚV í Bakú í söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva. Helgi sendi þessa kveðju til Gretu Salóme: „Vonandi skíttapar hún.“ Ástæðan er sú að Greta Salóme sagði við Stöð 2 :

„Ég [tel] að það sé reyndar ekki rétt að segja að hún, eða þessi keppandi, hafi látið sig varða mannréttindabrot. Mannréttindabrot varða okkur öll, að sjálfsögðu. Það er alveg sama hvaða keppandi það er. Það hefur hins vegar oft verið tekið fram að þetta er ekki pólitískur vettvangur, við erum komin hingað til að taka þátt í lagakeppni. Mannréttindabrot eru einfaldlega ekki hluti af þessari keppni. Við erum bara komin hingað til að gera okkar besta í keppninni."

Greta Salóme lítur réttilega á sig sem fulltrúa  RÚV og Íslands í söngvakeppni en hún hafi ekki verið send sem þátttakandI í baráttu fyrir mannréttindum. Að einn af stjórnendum Kastljóss skuli tala til hennar á þann hátt sem Helgi Seljan gerir er ómaklegt.

Sjónvarpið ætti að sjá sóma sinn í því að sýna mynd sem ég sá í norska sjónvarpinu um stjórnmál og mannréttindamál í Azerbajdsan og efla þannig stuðning við baráttu fyrir lýðræði þar frekar en starfsmenn RÚV ráðist á þá sem sendir eru þangað til að syngja fyrir hönd RÚV og Íslendinga.  

Greta Salóme og Jónsí sönnuðu í Krystalshöllinni í Bakú í kvöld hve óverðskulduð árás Helga Seljans er.

Egill Helgason, umræðustjóri RÚV, segir á vefsíðu sinni 26. maí:

„Það er sagt að Björn Bjarnason ætli að styðja Ara Trausta Guðmundsson. Það kemur vel á vondan, því Ari var í langan tíma foringi í einhverjum hörðustu kommúnistasamtökum sem hafa starfað á Íslandi.“

Álitsgjöf Egils Helgasonar er reist á sögusögn um afstöðu mína til frambjóðenda. Slík vinnubrögð þykja ekki vönduð meðal fjölmiðlamanna vilji þeir njóta trausts en ekki skipa sér í flokk með sögusmettum.

Ólafur Ragnar, Þóra og Ari Trausti hafa öll hallast að sósíalisma og Ólafur Ragnar og Ari Trausti að marxisma. Ég ræddi við Ara Trausta í þætti mínum á ÍNN og hef enga ástæðu til að ætla að hann hafi skrökvað að mér. Ari Trausti hefur heilsteyptustu skoðanir hinna þriggja fylgismestu forsetaframbjóðenda og á því auðveldast með að segja skilið við þær sem hann hafnar og halda til nýrrar áttar. Þegar ég lít þriggja fyrrverandi sósíalista velti ég fyrir mér hvort í því efni gildi ekki reglan um „the real thing“ þegar að uppgjöri kemur.