25.5.2012 23:50

Föstudagur 25. 05. 12

Það birtist nú sem ljóst var frá upphafi að Þóra Arnórsdóttir hefði ekki roð við Ólafi Ragnari Grímssyni eftir að forsetakosningabaráttan hæfist. Kannanir sem birtar voru í dag sýna öruggt forskot Ólafs Ragnars þótt ein af þremur sýni þau standa jafnt að vígi. Til þessa hefur Þóra notið mestra vinsælda.

Þunginn í kosningabaráttu Ólafs Ragnars er svo mikill að jafnvel kosningavél Samfylkingarinnar getur ekki elt hann uppi fyrir Þóru. Sú vél er einnig löskuð vegna átaka innan flokksins og vaxandi óánægju með Jóhönnu Sigurðardóttur. Skal enn og aftur lýst undrun yfir stuðningi þingflokks Samfylkingarinnar við hana. Jóhanna situr sem forsætisráðherra á ábyrgð hans. Málaferlin yfir henni vegna brota á jafnréttislögunum eru til marks um dæmalausa stjórnarhætti hennar. Þögnin um lögsóknina í öðrum fjölmiðlum en Morgunblaðinu er hins vegar til marks um helsjúka fjölmiðla.

Það ber minna á því núna en tíðkaðist áður hjá Ríkisútvarpinu að leita til stjórnmálafræðimanna og spyrja þá hvort stjórnmálamenn í hinu eða þessu landinu hefðu ekki sagt af sér lentu þeir í einhverju sem fréttamönnunum þótti tilefni til að draga fram í dagsljósið varðandi störf íslenskra ráðherra. Hér skal því haldið fram að hvergi þegðu fjölmiðlar jafnþunnu hljóði um málaferli á hendur forsætisráðherra og þeir gera hér um jafnréttismálið hér gegn Jóhönnu Sigurðardóttur.