20.5.2012 22:17

Sunnudagur 20. 05. 12

Kammersveit Reykjavíkur flutti fjórar hljómsveitarsvítur eftir J. S. Bach undir stjórn Richards Eggars í Eldborg í Hörpu klukkan 14.00 við góðar undirtektir áheyrenda.

Samningsmarkmið Íslendinga í landbúnaðarmálum í ESB-aðildarviðræðunum hafa ekki verið kynnt. Það kemur ekki í veg fyrir að Stefán Haukur Jóhannesson, formaður viðræðunefndar Íslands, segi í nýju blaði ESB-aðildarsinna, Sveitinni, sem sagt er frá í dag segi að ESB hafi skýrt frá vilja til að semja um sérlausnir í landbúnaðarmálum við Íslendinga. Mér finnst málflutningur sendiherrans frekar eins og hann sé að skýra málstað ESB en að árétta stöðu og stefnu Íslands í aðlögunarviðræðunum. Tilgangurinn virðist sá að búa menn undir þau tíðindi að íslenska viðræðunefndin leggi fram tillögur sem falli að skilyrðum ESB.

Það hefur aldrei lofað góðu í deilum Íslendinga um brýn hagsmunamál sín að viðræður hefjist á því að íslenska viðræðunefndin taki til við að setja sig í spor viðmælandans og semji síðan við sjálfa sig og komist að niðurstöðu í eigin hóp um það sem hún heldur að falli að kröfum viðmælandans. Við blasir að þetta ráði nú ferðinni í landbúnaðarmálum ef marka má það sem fram kemur í nýja blaðinu, Sveitinni.

Hér má lesa meira um það sem segir í þessu nýja ESB-aðildarblaði.