15.5.2012 15:55

Þriðjudagur 15. 05. 12

Á visir.is má lesa þriðjudaginn 15. maí:

„Fjórir umsækjendur um forstjórastöðu tónlistar- og ráðstefnuhússins Hörpu komu helst til greina, eftir langt og strangt ferli. Það voru auk Halldórs Guðmundssonar, sem tilkynntur var sem forstjóri 3. maí sl., Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingkona, fyrrverandi menntamálaráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, Þórólfur Árnason, verkfræðingur og m.a. fyrrverandi borgarstjóri, og Hrönn Greipsdóttir, fyrrverandi hótelstýra. […]

Samkvæmt heimildum fréttastofu var tekist á um ráðningu nýs forstjóra innan stjórnar Eignarhaldsfélagsins Portusar, sem á og rekur Hörpuna, en ríki og borg eru eigendur félagsins (Ríki 54%, borg 46%). Umsóknarferlið var einnig nokkuð umfangsmikið en umsækjendur fóru í gegnum hin ýmsu próf og lögðu fram framtíðarsýn fyrir stjórn Portusar og fulltrúa frá Capacent. Meirihluti stjórnar Portusar, það er þrír stjórnarmenn af fimm, vildu ráða Þorgerði Katrínu í starfið að loknu umsóknarferlinu, samkvæmt heimildum fréttastofu, en eftir nokkur átök í stjórninni varð úr að ráða Halldór í starfið.“

Þessi frétt þarfnast skýringar. Hvernig getur meirihluti stjórnar komist að niðurstöðu um ráðningu forstjóra en síðan er annar ráðinn? Hvernig kemur þetta heim og saman við heitstrengingar eigenda Portusar hjá borg og ríki um fagleg sjónarmið við ráðningu manna í störf og embætti?

Almenningur hefur sýnt Hörpu og starfsemi þar meiri áhuga en nokkur gat vænst þegar litið er til þess að gestir í húsið á einu ári nálgast eina milljón. Það er ekki í anda þess mikla áhuga að pukrast sé með val á stjórnendum Hörpu. Stjórn Portusar hefur neitað að birta lista yfir 42 umsækjendur um stöðu forstjóra. Stjórnin á að sjálfsögðu að birta þennan lista og skýra frá því hvernig staðið var að vali forstjórans. Það yrði í samræmi við hinn almenna áhuga á Hörpu og starfinu þar.