12.5.2012 23:55

Laugardagur 12. 05. 12

Ríkisstjórnin leggur fram frumvarp um stjórn fiskveiða sem grefur undan atvinnuröryggi allra sem starfa að sjávarútvegi og 40% af útflutningstekjum þjóðarinnar. Byggðarlög grípa til þess ráðs að kynna landsmönnum hvað sé í húfi fyrir þau með auglýsingum í fjölmiðlum. Þá umturnast Jóhanna Sigurðardóttir og skrifar í dag í Fréttblaðið:

„Þegar liðin eru rétt þrjú ár af kjörtímabilinu stendur ríkisstjórnin enn í ströngu eins og landsmenn verða áþreifanlega varir við þessa dagana. Það sést meðal annars í auglýsingum útgerðarvaldsins í landinu gegn áformum ríkisstjórnarinnar um breytt fiskveiðistjórnunarkerfi og hækkun veiðigjalds sem stendur til að innheimta af lögmætri eign almennings.“

Þessi texti endurspeglar enn einu sinni frekju og ofríkisáráttu forsætisráðherrans. Við hverju bjóst hún eftir að hafa stjórnað landinu jafnilla og raun ber vitni í þrjú ár? Að sitja á friðarstóli? Í þrjú ár hefur Jóhanna bögglast við að grafa undan sjávarútveginum án árangurs. Mál hennar eru svo illa undirbúin að þess vegna stendur hún „enn í stöngu“.

Það er sama hvort þingmenn mótmæla ríkisstjórnin í ræðum á alþingi eða almenningur rís gegn henni með því að segja skoðun sína í auglýsingum allt eru þetta skemmdarverk í augum Jóhönnu. Kveinstafir hennar hafa þó aðeins öfug áhrif, þeir auka alls ekki vinsældir ríkisstjórnarinnar. Kapphlaup er að hefjast innan Samfylkingarinnar um stól Jóhönnu.  

Það hefur enginn áhuga á rétta ríkisstjórninni hjálparhönd nema Hreyfingin og sérstaklega Þór Saari. Hann hneykslast á því að fólk mótmæli á friðsamlegan hátt með auglýsingum. Þór finnst skynsamlegra að gripið sé valdbeitingar gegn alþingi á Austurvelli,  unnin skemmdarverk á Alþingishúsinu og vegið að lögreglumönnum.