8.5.2012 22:25

Þriðjudagur 08. 05. 12

Í norskum sjónvarpsþætti sem sýndur var í RÚV í kvöld var rætt um að enginn vildi standa þannig að málum á Norður-Íshafi að þar ykist hernaðarleg spenna. Allir viðurkenna að miklar auðlindir sé að finna á svæðinu, einkum olíu og gas, en auk þess mikið af fiski.  Yfirlýst markmið er að fara að alþjóðalögum við nýtingu þessara auðlinda en ekki beita valdi.

Heilbrigð skynsemi segir að enginn hafi hag af því að stofna til hernaðarlegrar spennu á norðurslóðum þar sem stórveldi gæta eigin hagsmuna.

Eitt fyrsta verk Vladimir Pútins eftir að hann varð forseti Rússlands í þriðja sinn var þó að gefa fyrirmæli um að styrkja rússneska herflotann til aðgerða á Norður-Íshafi eins og lesa má hér.

Bandaríkjastjórn fer með hraða snigilsins þegar litið er til þess sem gerist á vettvangi bandarísku strandgæslunnar eða flotans með tilliti til norðurslóða. Bandaríkjamenn ráða varla yfir ísbrjótum sem duga til aðgerða á Norður-Íshafi. Líklegt er að í Bandaríkjunum vakni menn með andfælum einn góðan veðurdag vegna þess sem gerist á Norður-Íshafi. Spurning er hvort bandarísk stjórnvöld hafi ekki þegar sofið yfir sig.

Með því að endurnýja tækjakost Landhelgisgæslu Íslands og með aukinni þátttöku gæslumanna í alþjóðlegum eftirlitsstörfum hefur verið búið í haginn fyrir marktæka þátttöku Íslendinga í eftirliti, leit og björgun á Norður-Atlantshafi, anddyrinu að Norður-Íshafi. Engin þjóð á meira undir því en hin íslenska að halda vígdrekum frá þessum slóðum.