3.5.2012 22:20

Fimmtudagur 03. 05. 12

Líflegar umræður eru í netheimum um hvort Ólafur Ragnar Grímsson ákveði þegar öllu er á botninn hvolft að gefa ekki kost á sér að nýju til setu á Bessastöðum. Ólíklegt er að hann dragi sig í hlé, á hinn bóginn er Ólafur Ragnar tæplega sáttur við framvindu mála frá því að hann hætti við að hætta af umhyggju fyrir festu í stjórn ríkisins. Fjöldi forsetaframbjóðenda sýnir ekki mikla virðingu fyrir ákvörðun hans og fylgið í skoðanakönnunum hlýtur að vekja honum og stuðningsmönnum hans áhyggjum.

Allt stefnir í harða kosningabaráttu. Nú lendir forsetaembættið sjálft í meira ölduróti en nokkru sinni fyrr. Þótt áður hafi verið efnt til kosninga þegar sitjandi forseti gefur kost á sér til endurkjörs hafa aðstæður aldrei verið sambærilegar við það sem nú er. Sé það markmið Ólafs Ragnars að skila embættinu af sér sæmilega heillegu ætti hann að velta þeim kosti fyrir sér að draga það ekki inn í kosningaslaginn með framboði sínu.

Í hita leiksins verður ekki alltaf auðvelt fyrir andstæðinga Ólafs Ragnars að draga skil á milli hans annars vegar og embættisins hins vegar. Eftir að hann hefur setið að Bessastöðum í 16 ár er hann orðinn svo samgróinn embættinu að erfitt er fyrir hann sjálfan að gera mun á því sem snertir hann persónulega og embættið sérstaklega. Yrði Ólafur Ragnar ekki í kjöri mundi kosningabaráttan snúast um einstaklinga í framboði. Framboð Ólafs Ragnars dregur forsetaembættið sjálft inn á vígvöllinn.