30.4.2012 23:40

Mánudagur 30. 04. 12

Í Rangárþingi eystra hafa gámar verið fjarlægðir og öskutunnur settar við hús í sveitarfélaginu. Þetta var gert að fyrirmynd frá Bláskógarbyggð. Ástæðan er meðal annars sögð sú að fólk hafi ekki flokkað sorp nægilega vel fyrir gámana. Gámafyrirtækinu hafi verið um megn að sinna þjónustunni. Áform eru um að gámar verði sendir út um sveitir vor og haust. Hvert eða hvenær þeir verða sendir er óljóst. Verða þeir á gömlu gámastæðunum eða sendir heim á lögbýli?

Ekki er komin nægileg reynsla á þessa tilhögun til að leggja mat á hana. Í fljótu bragði má ætla að hún ýti undir hirðuleysi, hvetji til þess að rusl sé brennt eða urðað í heimagerðum holum. Í nágrenni mínu fylltust gámar af alls kyns drasli sem menn leggja ef til vill ekki á sig að aka með tugi kílómetra til að setja í gámamiðstöðina  á Hvolsvelli. Er líklegra að menn raði rétt í gáma þar en þegar þeir stóðu nær íbúunum um sveitina? Er skynsamlegra að láta marga aka í eina miðstöð en senda einn bíl reglulega eftir gámum á nokkrar dreifðar stöðvar? Er akstur margra með rusl rétta svarið við hærra eldsneytisverði eða í baráttunni gegn mengun andrúmsloftsins?

Mia Stanley, fréttaritari Reuters, birtir frásögn um Ísland 30. apríl. Hún hitti Þóru Arnórsdóttur forsetaframbjóðanda sem sagði að landsdómsmálið gegn Geir H. Haarde hefði frekar opnað sár en leitt til sátta í þjóðfélaginu. Fólk segði Þóru að það þyldi ekki lengur að horfa á fréttir. „Ég tel að við komumst í gegnum þetta án þess að draga fram rýtingana,“ segir Þóra við Reuters. „Ég vona að ég geti beitt áhrifum forsetaembættisins til að loka þessum skotgröfum.“

Þá segist Mia Stanley hafa hitt Egil Helgason „one of Iceland's best-known television commentators“. Hann segir: „Bjuggu Íslendingar við „identity crisis“ [skerta sjálfsmynd]? Já. Þeir héldu að þeir væru fjármálasnillingar en það var allt blekking ... Nú snúa þeir sér aftur að bókum, tónlist og jú fiski.“