29.4.2012 22:00

Sunnudagur 29. 04. 12

Kvartett Kammersveitar Reykjavíkur flutti í dag tvo kvartetta á hádegistónleikum í Kaldalóni, sal í Hörpu, eftir Leif Þórarinsson og El Greco eftir Jón Leifs. Þetta eru aðrir hádegistónleikar kvartettsins með verki eftir Jón Leifs, hinir þriðju verða 3. júní. Kvartettinn vinnur nú að upptöku á þremur kvartettum Jóns Leifs og eru tónleikarnir liður í þeim undirbúningi. Þá er einnig gerð tilraun með hádegistónleika á sunnudegi, en þeir eru vinsælir víða um lönd.

Nýlega hafa birst niðurstöður víðtækrar rannsóknar á hollustu tedrykkju. Þær eru traustvekjandi fyrir okkur te-fólk. Stundum fyllist tedrykkju-maður tilfinningu minnihlutahóps; kaffið hefur algjöra yfirburði þegar litið er til neyslu og þess sem fram er borið á mannamótum. Hér hefur orðið mikil þróun í framboði á kaffi, ég veit ekki hvað allt þetta kaffi heitir og því síður þekki ég bragðið því að áratugir eru liðnir frá því að ég hætti að setja kaffi inn fyrir mínar varir.

Hjá Te og kaffi má kaupa alls kyns te-tegundir í lausu máli og í verslunum er mikið úrval af tei í pokum. Vandfundin eru kaffihús hér í Reykjavík þar sem menn leggja sig fram um að koma til móts við óskir te-drykkjumanna. Tepoki í kaffibolla með hálfvolgu vatni er í boði á stöðum þar sem unnt er að kaupa alls kyns tegundir af kaffi. Sé spurt um hvort unnt sé að fá vatnið í tekönnu og kannski setja pokann út í hana nýtur það sjaldan mikils skilnings. Vissulega eru til undantekningar. Í veitingahúsinu Lækjarbrekku fæ ég tekönnu og stóran tebolla en ekki til dæmis í Amokka, þar er að vísu te í lausu en veitingamaður áttar sig ekki á því hve miklu skiptir að bollinn sé stór þegar vatn sett á tesíuna.

Rannsóknirnar sem ég nefndi sýna að svart te er um 75% af því tei sem neytt er í heiminum. Koffínmagn í tei er mest í hinu svarta, um 40 milligrömm í bolla (í kaffibolla eru 50 til 100 milligrömm af koffíni).

Næringarfræðingurinn Rebecca Baer í New York segir að svörtu tei sé mest af theaflavin og thearubigins sem dragi úr kólestróli. Rannsóknir sýna að þeir sem rekka þrjá eða fleiri bolla af tei á dag minnki líkur á hjartaáfalli um 21%. Hver bolli virðist minnka líkurnar um 7%.