26.4.2012 22:40

Fimmtudagur 26. 04. 12

Varðberg hélt fund í hádeginu í dag þar sem Guðmundur Kr. Tómasson í Seðlabanka Íslands og Haukur Oddsson hjá Borgun fluttu erindi um öryggi í rafrænum viðskiptum. Varðberg hefur beitt sér fyrir fundum um öryggi hins almenna borgara sannaðist rækilega á þessum fundi hve við eigum hvert og eitt mikið undir því að ekki hlaupi snurða á rafræn viðskipti og ekki sé unnt að brjótast inn á kort okkar eða reikninga. Frásögn af fundinum má lesa á Evrópuvaktinni.

Í kvöld var messa í Karmelklaustrinu í Hafnarfirði þar sem fagnað var að til klaustursins hefur borist helgur dómur frá Róm, klæðisbútur með blóði Jóhannesar Páls II. páfa. Með honum má segja að páfinn sé kominn til landsins í annað sinn en hér var hann í opinberri heimsókn í júní 1989. Hinn 1. maí 2011 var Jóhannes Páll II. páfi tekinn í tölu blessaðra og nafni hans og bænum til hans tengjast kraftaverk.

Margt einkennilegt er sagt í tilefni af landsdóminum af þeim sem reyna að afflytja hann í því skyni að gera hlut Geirs H. Haarde verri en dómararnir gerðu. Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, hefur gert þetta hvað eftir annað í fjölmiðlum með yfirlýsingum um að 2. liður ákærunnar hafi verið mikilvægasti liður hennar. Af því tilefni sagði Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í þingræðu miðvikudaginn 25. apríl:

„Að gefnu tilefni tel ég rétt vegna sögulegs samhengis að vekja hér athygli á því að ég get ekki séð að þær fullyrðingar sem komið hafa fram í fjölmiðlum um að 2. liður ákærunnar hafi verið alvarlegasti ákæruliðurinn eigi við rök að styðjast. Ég sat í þingmannanefndinni og kannast ekki við að svo hafi verið.

Þeir sem hafa áhuga á að fá nánari rökstuðning fyrir þessari afstöðu minni geta farið yfir þingræður þeirra þingmanna sem tjáðu sig um þetta mál á sínum tíma og jafnframt þá afstöðu þessara þingmanna sem hafa tjáð sig um þetta. Ég vakti athygli á þessu í minni ræðu, fjallaði sérstaklega um þennan ákærulið þar sem ég leyfði mér að fullyrða að honum hefði verið kastað inn í púkkið til að fylla upp í ákæruskjalið. Ég tel að allir þeir sem vilja sjá það sjái á niðurstöðu landsdómsins, því að Geir H. Haarde var ekki gerð sérstök refsing fyrir þennan ákærulið, sjái að þessi orð eiga ekki við rök að styðjast.“

Ragnheiður Ríkharðsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins sat einnig í þingmannanefndinni sem undirbjó ákæruna. Hún sagði á alþingi fimmtudaginn 26. apríl að í nefndinni hefði aldrei verið „rætt hvaða ákæruatriði væri veigameira en önnur, aldrei“.

Óvandaður málflutningur Eyglóar Harðardóttur er ekki bundinn við þetta eina mál en framkoma hennar í landsdómsmálinu sýnir að hún ræður ekki við heift sína og fer því út af spori sannleikans.