10.4.2012 22:00

Þriðjudagur 10. 04. 12

Þórunn Elísabet Bogadóttir skrifar leiðara Fréttablaðsins í morgun í þeim tilgangi að búa í haginn fyrir unga forsetaframbjóðendur með því að segja að þeir fái ekki eftirlaun fyrr en þeir hafi aldur til þess en ekki þegar þeir láta af forsetaembætti.

Þá segir hún í leiðaranum að engu skipti hvaða skoðun forseti hafi á Evrópusambandsaðild.  Alþingi hafi samþykkt þingsályktunartillögu um málið fyrir tæpum þremur árum. Í henni segi: „að loknum viðræðum við sambandið verði haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um væntanlegan aðildarsamning." Enginn flokkur vilji keyra málið í gegn án þjóðaratkvæðagreiðslu þótt sumir þeirra vilji reyndar kjósa enn fyrr. Forsetinn þurfi því engu hlutverki að gegna þegar aðildarsamningur er kominn á borðið.

Er þetta rétt? Þjóðaratkvæðagreiðslan er ráðgefandi, þrátt fyrir hana getur meirihluti alþingis samþykkt aðild að ESB. Þá þarf alþingi einnig að breyta stjórnarskránni við að unnt sé ganga í ESB. Lög sem snerta aðildina taka ekki gildi nema forseti riti undir þau. Hafi alþingi ráðgefandi skoðanakönnun að engu kann forseti að knýja fram bindandi atkvæðagreiðslu með því að neita að undirrita lög tengd ESB-aðild.

Í leiðaranum segir Þórunn Elísabet:

„Ástæða þess að framboð Þóru Arnórsdóttur hefur öðrum framboðum fremur hlotið athygli síðustu daga er ekki einhvers konar samtrygging fjölmiðlamanna eins og reynt hefur verið að halda fram, heldur sú staðreynd að hún og hennar fólk kann greinilega að gera fréttnæma hluti. […] Framboð Þóru var það eina sem var með stöðuga upplýsingagjöf yfir páskahátíðina, þegar fátt annað fréttnæmt átti sér stað. Þetta var sniðugt kosningabragð.“

Það er alltaf einkennilegur hljómur í því þegar fjölmiðlamenn þurfa að afsaka að þeir flytji fréttir eða sverja af sér samtryggingu. Hvaða fjölmiðlar eru þetta sem kalla á þessa afsökun fyrir hönd Þóru Arnórsdóttur í leiðara Fréttablaðsins? Hvernig er unnt að leika kosningabragð þegar tæpir þrír mánuðir eru til kosninga – var þetta ekki aðeins áróðursbragð í von um að fæla aðra frá framboði?

Ég skrifaði pistil hér á síðuna í dag um fábreyttar fjölmiðlafréttar af ESB-viðræðunum.