27.3.2012 22:20

Þriðjudagur 27. 03. 12

Lengi hef ég ætlað mér að sjá hvernig efna má til umræðu á fésbókinni og greip tækifærið í dag þegar ég sá vikið að Evrópuvaktinni og styrk alþingis til hennar á vefsíðu Teits Atlasonar í Gautaborg. Þeir sem gera athugasemdir á síðu hans eru sumir ákafir ESB-aðildarsinnar, aðrir sjá að því er virðist rautt þegar ég er annars vegar, sýnist mér Teitur skipa þessa flokka báða.

Þátttaka í samræðunum staðfesti að skynsamlegt sé að hafa góða stjórn á tímanum sem varið er til  að koma skoðunum sínum á framfæri á samskipta- eða samfélagssíðum.

Framkvæmd gjaldeyrishaftanna tók á sig nýja mynd í dag þegar fulltrúar sérstaks saksóknara fóru að ósk seðlabankans að hvatningu Kastljóss til húsleitar í höfuðstöðvum Samherja. Tilgangurinn virðist sá að sanna að Samherji hafi notað fisk til að komast framhjá gjaldeyrishöftunum.

Már Guðmundsson seðlabankastjóri sagði í þingnefnd í gær að bankinn þyrfti ný tól til að takast á við efnahagsmálin, í þeim orðum fólst ef til vill fyrirboði þess sem gerðist í Samherja í dag.

Þá er ekki unnt að slíta þessa atburði og tímasetningu úr samhengi við að í gær kynntu Steingrímur J. Sigfússon og Jóhanna Sigurðardóttir  breytingu á lögunum um stjórn fiskveiða. Útgerðarmenn og aðrir sem eiga beinna hagsmuna að gæta líta á tillögur ríkisstjórnarinnar sem aðför að hagsmunum sínum.

Ríkisstjórn og seðlabanki halda áfram að grafa dýpri holu í stað þess að brjótast úr viðjunum. Tæra vinstri stjórnin sýnir engan vilja til slíkra átaka til að virkja krafta fyrirtækjanna. Churchill sagði: Socialism is about equal sharing of misery. Réttmæti orða hans sannast hér á landi, jöfnuðurinn er niður á við, ofan í holu stjórnvalda.