11.3.2012 22:20

Sunnudagur 11. 03. 12

Hvarvetna á Norðurlöndum glíma þeir sem eru lengst til vinstri og sitja í ríkisstjórn við mikinn vanda, jafnvel tilvistarvanda.

Fréttir frá Danmörku benda til þess að vandræði í ríkisstjórninni aukist jafnt og þétt með síminnkandi fylgi í skoðanakönnunum. Af stjórnarflokkunum þremur er helst sótt að Sósíalíska þjóðarflokknum (SF) en Villy Søvndal, formaður flokksins og utanríkisráðherra, sækir harðri gagnrýni eigin flokksmanna. Hann var til skamms tíma vinsælasti stjórnmálamaður Danmerkur.

Fréttir af Sósíalíska vinstriflokknum (SV) einum stjórnarflokkanna í Noregi benda ekki til þess að honum hafi farnast vel í ríkisstjórninni. Kristin Halvorsen menntamálaráðherra hvarf úr formennsku flokksins laugardaginn 10. mars og tók Audun Lysbakken við af henni en hann neyddist til að segja af sér sem ráðherra fyrir nokkrum dögum þegar skýrt var frá því að hann hefði hyglað eigin flokksmönnum með fjárstuðningi sem jafnréttisráðherra.

Öllum er ljóst hve illa ríkisstjórnarsetan hefur leikið vinstri-græna (VG) hér á landi. Fylgið hefur hrunið af flokknum samkvæmt skoðanakönnunum og er nú 12%. Flokkurinn er klofin ofan í rót vegna ESB-málsins og Steingrímur J. Sigfússon og klíka hans halda völdum í flokknum með þöggun og banni við því að erfið mál séu tekin umræðu á vettvangi hans.