26.2.2012 22:02

Sunnudagur 26. 02. 12

Furðulegt er að sjá móðgun Harðar Torfasonar vegna orða Geirs Jóns Þórissonar, fyrrverandi yfirlögregluþjóns, um að þingmenn inni í Alþingishúsinu hafi stýrt mótmælendum  við  árásir á húsið 20. og 21. janúar 2009. Engu er líkara en Hörður telji að glæpnum sé stolið af sér með þessum orðum. Hann hlýtur þó að átta sig á því við nánari athugun á orðum Geirs Jóns að þau snúa að „taktískum“  aðgerðum mótmælenda  gegn lögreglumönnum sem stóðu vörð um Alþingishúsið en ekki að Herði sjálfum, manninum á pallinum.

Ég hef oftar en einu sinni nefnt Álfheiði Ingadóttur, þingmann vinstri-grænna, í tengslum við umræður um að hringt hafi verið í farsíma mótmælenda úr þinghúsinu og þeim leiðbeint. Álfheiður hefur veist að mér með stóryrðum vegna þess sem ég hef sagt um þetta. Nú er gripið til þess ráðs gagnvart Geir Jóni að vega að heiðri hans sem lögreglumanns þegar hann segir frá staðfestri vitneskju sinni. Í sömu andrá er þess getið að hann hafi boðið sig fram til embættis annars formanns Sjálfstæðisflokksins.  Sú ábending er sett fram á þann hátt að með henni á að draga úr trúverðugleika Geirs Jóns.

Á vefsíðu VG Smugunni segir í dag, 26. febrúar:

„Ögmundur [Jónasson innanríkisráðherra] segir að hér [hjá Geir Jóni] sé  verið að draga upp sögulega mynd af atburðunum við Alþingishúsið þegar mótmælin stóðu sem hæst, eftir hrunið. „Sú mynd er afskræmd ef að menn gefa það til kynna með yfirlýsingum að þær þúsundir sem þarna voru hafi verið handbendi einhvers. Hafi einstakir alþingismenn haft þau áhrif, sem hér er haldið fram, og þeir hafi með því vegið að lögreglunni, þá er það svo, að ekkert slíkt hefur komið fram formlega og engar kærur um það lagðar fram. Mér finnst rangt að halda lifandi málflutningi af þessu tagi,“ segir Ögmundur.“

Ég tek undir með Ögmundi að það sé afskræmd mynd af mótmælunum að segja alla mótmælendur hafa verið „handbendi einhvers“. Geir Jón hefur ekki heldur sagt það. Við RÚV sagði hann:



Sjá framhald með því að slá á Lesa meira hér fyrir neðan!

 

 

 

 „Ég fékk það síðan staðfest að þingmenn, sem voru  inni í þinghúsinu þegar mótmæli stóðu yfir fyrir utan húsið, [hefðu] verið í samskiptum við lykilfólk sem tók þátt í mótmælunum. Lögreglumenn urðu varir við að það hafði áhrif á staðsetningu mótmælenda og beinlínis sáu að það hafði áhrif. Við sáum að það varð oft til þess að þeir brugðust harðar við, gengu kannski harðar fram gagnvart lögreglunni. Við upplifðum bara ákveðnar breytingar og hreyfingar á mótmælendum, þeir virtust hreyfa sig meira í kringum húsið.“

Þetta eru orð sem koma heim og saman við reynslu þeirra sem voru í þinghúsinu á þessum tíma. Þá hefði Geir Jón mátt láta þeirra þingmanna getið sem misstu stjórn á skapi sínum af því að lögreglan fékk skjól í þinghúsinu.  Heimtuðu  sumir þingmenn að lögreglunni yrði vísað á dyr og mátu einskis að hún stæði vörð um þá og þinghúsið.