29.1.2012

Sunnudagur 29. 01. 12

Tvær greinar í erlendum blöðum vöktu athygli mína í dag. Annars vegar í The New York Times þar sem birt er forsíðufrétt um hvernig ráðgjafar Mitts Romneys tókst að snúa prófkjörsbaráttu hans við Newt Gingrich skjólstæðingi sínum í vil, hins vegar í Le Monde þar sem sagt er frá viðbrögðum meðal þingmanna og stjórnmálamanna við fréttum af því að Nicolas Sarkozy tapi í forsetakosningunum 22. apríl nk.

Í viðtalsþættinum Meet the Press í dag lýstu álitsgjafar undrun yfir því að ráðgjafar Romneys hefðu rætt við NYT um störf sín fyrir Romney á þann hátt sem þarna er gert og raunar látið eins og verk þeirra frekar en lýðhylli frambjóðandans sjálfs skipti engu. Í þættinum voru birtar tölur um hve miklu fé Romney og Gingrich hefðu notað til auglýsinga, ef ég man rétt eyddi Romney 15 milljónum dollara en Gingrich 4 milljónum. Álitsgjafarnir voru sammála um að þessi harða prófkjörsbarátta hefði farið út fyrir öll skynsamleg mörk og skaðaði repúblíkana.

Fréttin í NYT minnir á efni kvikmyndarinnar Ides of March sem George Clooney leikstýrir og segir frá hlutverki ráðgjafa forsetaframbjóðenda og hve sterkri stöðu þeir geta náð gagnvart frambjóðanda sínum.

Ef greinarnar í hinum erlendu blöðum eru staðfærðar hér lýsa þær helst ástandinu innan Samfylkingarinnar. Jóhanna Sigurðardóttir er í höndum ráðgjafa eða nefndar þar sem allir nefndarmenn velta fyrir sér hvað verði um þá þegar hún hættir, að hverjum þeir eigi að halla sér innan flokksins eða í stjórnkerfinu. Þessum mönnum tókst að afstýra því að flokkstjórnarfundi í gær að uppgjörið við Jóhönnu hæfist með boðun aukalandsfundar. Þeir létu hana þess í stað segja að hún kynni að gefa kost á sér að nýju sem formaður og nú yrði að herða baráttuna gegn íhaldinu!