26.1.2012

Fimmtudagur 26. 01. 12

Í hádeginu efndi Varðberg til fundar í ráðstefnusal Þjóðminjasafnsins þar sem Ellisif Tinna Víðisdóttir og Margrét Cela ræddu um öryggismál á norðurslóðum, hernaðarleg og borgaraleg og hvernig um svæðið er fjallað og þróunina þar á fræðilegum forsendum. Fundurinn var vel sóttur og heppnaður.

Frönsk kvikmyndavika hófst í Háskólabíói í kvöld með myndinni The Artist, frábærri kvikmynd sem fékk flest Golden Globe verðlaunin á dögunum og hefur fengið flestar tilnefningar til Óskarsverðlauna. Allt er það verðskuldað. Það er djörf hugmynd að gera þögla svart hvíta mynd nú á dögum. Framtakið sannar aðeins hve góðar myndir má gera með þessari tækni og hve kröfuhörð myndavélin er.

Mynd Clints Eastwoods J. Edgar fær ólíka dóma í blöðunum í Morgunblaðinu fékk hún fjórar stjörnur en aðeins tvær í Fréttablaðinu. Ég er nær Morgunblaðinu þótt ég geti fallist á það með Fréttablaðinu að gerfin á söguhetjunum þegar árin færðust yfir þær voru illa gerð og Robert Kennedy og Richard Nixon hefðu mátt vera meira sannfærandi, sérstaklega Kennedy.