17.1.2012

Þriðjudagur 17. 01. 12

Eftir því sem umræður verða meiri um tillögu Bjarna Benediktssonar um afturköllun á landsdómsákærunni þeim skýrar birtist pólitískt eðli ákærunnar á alþingi. Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra skrifar grein í Morgunblaðið í dag og segist ætla að styðja tillögu Bjarna þótt hann hafi greitt atkvæði með ákærunni á sínum tíma. Vegna greinarinnar taka flokksfélög VG og Samfylkingarinnar við sér og álykta um að fella beri tillögu Bjarna. Málið tekur á sig hreina flokkspólitíska mynd.

Steingrímur J. Sigfússon vildi ekki segja neitt um afstöðu Ögmundar við fréttamenn í dag, sagðist ætla ræða málið í þingflokknum á morgun. Árni Þór Sigurðsson, þingmaður VG, líkir Ögmundi  við „sótraft“. Eftir að Steingrímur J. hafði greitt atkvæði með ákæru á hendur Geir H. Haarde sagðist hann hafa gert það með „sorg í hjarta“. Hann virðist ekki ætla að gera upp við sorgina núna heldur segist hann ekki hafa gert annað en fara að vilja meirihluta nefndarinnar sem vildi ákæra Geir.

Á dögunum skrifaði Róbert Spanó lagaprófessor grein í Fréttblaðið og taldi alþingi heimilt að afturkalla ákæruna. Í dag skrifar Stefán Már Stefánsson lagaprófessor grein í Morgunblaðið og telur ákæru alþingis haldna þeim ágöllum að hún sé í raun óboðleg frá lögfræðilegum sjónarhóli.