15.1.2012

Sunnudagur 15. 01. 12

Seinni dagur 40 ára krýningarafmælis Margrétar II. Danadrottningar. Danska sjónvarpið sýnir frá hátíðarhöldunum og athygli vakti að Ólafur Ragnar Grímsson tók ekki þátt í kvöldverðinum í Kristjánsborgarhöll, hápunkti afmælisins þar sem Henrik prins flutti ræðu konu sinni til heiðurs og bauð gesti velkomna. Kynnar danska sjónvarpsins höfðu stór orð um dýrgripina sem Silvía Svíadrottning bar. Dorrit forsetafrú var einamana þegar hún gekk í höllina og vegna fjarveru Ólafs Ragnars átti Ísland ekki fulltrúa þegar þjóðhöfðingjar Norðurlanda gengu í veislusalinn sem sagður er hinn glæsilegasti í Danmörku. Á vefsíðu forsetaembættisins kemur ekki fram hvað kallaði Ólaf Ragnar heim frá Kaupmannahöfn.

Fyrir nokkrum árum hitti ég sænskan vin minn og vakti hann máls á því við mig að hann ætti ekkert erindi við fréttir í sænska sjónvarpinu af því að þær hefðu breyst í neytenda- og umhverfisvettvang. Margt bendir til að hið sama sé að gerast hér. RÚV sinnir hvoru tveggja af mikilli alúð og þegar sameina má neytenda- og umhverfismál eru fréttir um sama efni dag eftir dag. Að lokum er niðurstaðan jafnan að einhver eftirlitsaðili hafi brugðist. Því er markvisst haldið að okkur að hið opinbera eigi að hafa eftirlit með stóru og smáu.