17.12.2011

Laugardagur 17. 12. 11

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur lagt fram tillögu um að alþingi afturkalli landsdómsákæruna á hendur Geir H. Haarde. Hér hef ég fært rök fyrir réttmæti þessarar tillögu.

Samfylkingarfólk á alþingi og fjölmiðlavinir þess hafa ærst vegna tillögunnar. Rökin gegn henni halda hins vegar ekki vatni.

Það stenst ekki að alþingi geti ekki ályktað og breytt fyrri ákvörðun sinni um þetta mál eins og önnur. Samfylkingin vill skjóta því til skrifstofu alþingis hvort ræða megi málið á þinginu! Að kveinka sér undan tímasetningu tillögunnar vegna jólaleyfis þingmanna er innihaldslaus spuni sem verður ábúðarmikill þegar fjömiðlavinirnir taka til við að hampa honum.

Rúsínunni í pylsuendanum kynntust áhorfendur Kastljóss föstudaginn 16. desember þegar Magnús Orri Schram, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði að það væri „farsælast“ fyrir Geir að málinu yrði fram haldið af því að þá gætu hinir mestu lögspekingar hreinsað mannorð hans! Bjarni Benediktsson benti á að pólitísk ákæra yfir Geir leiddi ekki til þess að hann þyrfti að hreinsa mannorð sitt, þeir sem bæru fram kæru yrðu að sýna að meiri líkur en minni væru á því að hinn ákærði yrði sakfelldur. Þær forsendur væru ekki hér fyrir hendi.

Sagan geymir mörg sorgleg dæmi um menn sem vilja þvo hendur sínar af óhæfuverkum þótt þeir hafi sjálfir hrundið ferlinu sem leiddi til þeirra af stað. Þegar þá skortir rök láta þeir eins og um eitthvert náttúrulögmál sé að ræða. Gagnrýnendur verði að sætta sig við orðinn hlut og afleiðingar hans, síst af öllu sé ástæða til að gagnrýna upphafsmennina.

Þannið talaði Magnús Orri um landsdómsmálið og þannig talar Samfylkingin um ESB-málið. Í hvorugu tilvikinu hefur Samfylkingin eða þingflokkur hennar þrek til að horfast í augu við sjálfan sig, viðurkenna mistök og breyta samkvæmt því.  Lítilmennskan setur æ sterkari svip á þingflokk Samfylkingarinnar enda dregur hann dám af Jóhönnu Sigurðardóttur sem hann hefur hvorki vilja né þrek til að ýta frá völdum.