2.12.2011

Föstudagur 02. 12. 11

Deilan vegna nýs fangelsis í Reykjavík eða á höfuðborgarsvæðinu er óskiljanleg nema hún sé sett í pólitískt ljós og skýrð á þann veg að Samfylkingin ætli að ná sér niðri á Ögmundi Jónassyni innanríkisráðherra. 

Í allt sumar veltu menn því fyrir sér í fjölmiðlum hvort Ögmundur stefndi að einkaframkvæmd eða venjulegri ríkisframkvæmd. Trúr stefnu sinni og óvild í garð einkaframtaksins valdi Ögmundur að berjast fyrir byggingunni sem venjulegri framkvæmd ríkisins sem veitt yrði fé til á fjárlögum. Hann er nú lentur í ógöngum vegna andstöðu stuðningsmanna ríkisstjórnarinnar.

Í um hálfa öld hafa menn unnið að því að reisa nýtt fangelsi á höfuðborgarsvæðinu. Alltaf hefur verið  brugðið fæti fyrir það á síðustu stundu. Í minni ráðherratíð var unnið að málinu samkvæmt áætlun sem gerði ráð fyrir framkvæmdum á Litla Hrauni áður en þær hæfust í Reykjavík. Haustið 2008 var tillaga um fjárveitingu til Litla Hrauns tekin út úr fjárlagafrumvarpinu vegna bankahrunsins. Það var mikil skammsýni.

Rögnu Árnadóttur tókst að fá fé til að taka Bitru í notkun sem fangelsi. Bitra stendur skammt fyrir austan Selfoss.

Enginn hefur hag af því að vega að fangelsisrekstri í Árborg. Á hinn bóginn er óhjákvæmilegt að loka kvennafangelsinu í Kópavogi og hegningarhúsinu við Skólavörðustíg og reisa nýtt fangelsi á höfuðborgarsvæðinu. Því hefur verið valinn staður á Hólmsheiði. Enginn er sérstaklega ánægður með staðinn en mikilvægt er að þetta fangelsi rísi þar sem samgöngur til Litla Hrauns eru auðveldar. Í því felst gagnkvæmur styrkur.

Þessi uppákoma núna er til marks um stjórnleysi undir forystu Jóhönnu Sigurðardóttur. Að sjálfsögðu á hún að sjá til þess að þingmenn Samfylkingarinnar standi að ákvörðun ríkisstjórnarinnar um fangelsi. Björgvin G. Sigurðsson, þingmaður Samfylkingarinnar, búsettur á Selfossi telur sig styrkjast í sessi með því að segja ríkisstjórninni stríð á hendur í málinu.

Þetta minnir mig á uppreisn samfylkingarmanna gegn mér þegar gripið var til nauðsynlegra aðgerða við breytingar á embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum. Uppreisnin rann út í sandinn enda leyfði málstaðurinn ekki annað. Hún ætti einnig að gera það í þessu tilviki. Lúti Ögmundur í lægra haldi hlýtur hann að pakka saman í ráðuneytinu.