28.11.2011

Mánudagur 28. 11. 11

Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sagði í morgunútvarpi RÚV í morgun að aðförin að sér innan ríkisstjórnarinnar ætti rætur í andstöðu hans við aðild Ísland að Evrópusambandinu.

Í dag hefur þrýstingur á brottför Jóns úr ríkisstjórninni aukist, hvorki Steingrímur J. Sigfússon flokksformaður né Björn Valur Gíslason þingflokssformaður vilja lýsa yfir stuðningi við Jón. Björn Valur segir að um sé að ræða vandamál innan flokksins og unnið sé að lausn þess.

Á sama tíma og gerð er aðför að Jóni Bjarnasyni sem getur ekki lokið á annan veg en þann að Jón hverfi úr ríkisstjórn ætli Jóhanna Sigurðardóttir að halda andlitinu berast fréttir um að ESB sæki harðar að íslenskum stjórnvöldum en áður. Þau vilja fá hina tímasettu áætlun sem Jón neitaði að senda í september þegar hann boðaði að hann ætlaði til viðræðna við aðila í Brussel til að vita hvað þeir vildu.

Jón hefur ekki farið til Brussel. Jóhanna Sigurðardóttir hefur hins vegar gert það og hitt Herman Van Rompuy, forseta leiðtogaráðs ESB, og José Manuel Barroso, forseta framkvæmdastjórnar ESB. Þar lagði hún áherslu á að aðildarviðræðum við ESB yrði flýtt. Það verður ekki gert án þess að til aðlögunar komi. Jón Bjarnason er á móti aðlögunum. Þess vegna vill Jóhanna losna við hann.

Steingrímur J. og Björn Valur vilja þóknast Jóhönnu og ýta Jóni Bjarnasyni til hliðar svo að hann sé ekki þvælast fyrir í ESB-málum og ríkisstjórnin lifi áfram. Þeir vita hins vegar að ekki er unnt að standa að aðför að Jóni vegna ESB vegna kjósenda VG. Þá er valin sú leið að ráðast að honum vegna fiskveiðistjórnunarmála og vinnuskjals sem er í skoðun hjá tveimur ráðherrum. Ómerklileg brögð eru einkenni ómerkilegra manna eins og sannast enn í þessu máli.