27.11.2011

Sunnudagur 27. 11. 11

Ríkisstjórnin er komin að fótum fram. Tveir ráðherrar vinstri-grænna láta sér í léttu rúmi liggja hvað Jóhönnu Sigurðardóttur finnst. Það er gert grín að henni á alþjóðavettvangi. Hún er sögð ein af 100 valdamestu konum heims en ráði þó ekki við eigin innanríkisráðherra sem hún segist ósammála um landsölu.

Jóhanna ræðst á Jón Bjarnason. Samfylkingarmenn láta eins og sjávarútvegsmál hafi verið tekin af honum. Kallað er á prófessor í stjórnmálafræði til að spinna um það í fréttatíma RÚV. Jón á síðasta orðið um málaflokkinn í ríkisstjórn á meðan hann er ráðherra. Jóhanna vill losna við hann en ræður ekki við málið. Þá er tekið til við að grafa undan Jóni, meira að segja Björn Valur Gíslason, formaður þingflokks VG, gengur í málið. Hann vinnur aldrei nein skítverk nema með samþykki Steingríms J. Sigfússonar.

Samfylkingunni hefur tekist að rústa VG í höndunum á Steingrími J. Hvernig ætlunin er að raða brotunum saman til að stjórnin lifi kemur í ljós. Jóhanna hættir ekki fyrr en þingflokkur Samfylkingarinnar ber hana út úr stjórnarráðinu.

Ég fjalla um þetta og ESB samþykkt landsfundar sjálfstæðismanna í nýjum pistli.