16.11.2011

Miðvikudagur 16. 11. 11

Í dag ræddi ég við Ásdísi Höllu Bragadóttur, stjórnarformann Sinnum, í þætti mínum á ÍNN. Þáttinn má sjá á tveggja tíma fresti þar til klukkan 18.00 á morgun, næst klukkan 22.00 í kvöld. Það hefur ekki farið mikið fyrir Sinnum í auglýsingum eða almennt í umræðum. Fyrirtækið hefur hins vegar vaxið og dafnað vel á skömmum tíma.

Hinn afkastamikli og fjölhæfi blaðamaður á Morgunblaðinu. Árni Matthíasson, hefur gluggað í bók Hannesar Hólmsteins um íslenska kommúnista og segir í blaðinu í morgun:

„Líkindi með trúarbrögðum og stjórnmálum má líka sjá nær okkur í tíma: Þegar íslenskir námsmenn héldu austur yfir járntjald til náms á sjöunda áratugnum fengu þeir margir áfall við að sjá hvernig lífið gekk fyrir sig þar, hve almenningur hafði það skítt, menningin var fátækleg og kúgunin yfirþyrmandi. Þeir voru þó ekki lengi að því að finna skýringuna, blessaðir sakleysingjarnir; beittu heiðarlegum, varfærnislegum og vísindalegum vinnubrögðum heilsteyptra sósíalista, eins og Árni Björnsson lýsti því í Þjóðviljanum í ágúst 1983, og komust að þeirri niðurstöðu að það sem hrjáði alþýðulýðveldin væri ekki kommúnismi, heldur að það væri ekki nógu mikill kommúnismi stundaður þar, kenningin væri ekki nógu hrein, eins og segir í Passíusálmunum: »...þín kenning klár / kröftug sé, hrein og opinskár“.“

Þegar ég las þetta datt mér í hug umræðan um evruna og vandann á evru-svæðinu. Hinir trúuðu segja að vandinn sé ekki evrunni að kenna heldur að það sé ekki nógu mikið yfirþjóðlegt vald á evru-svæðinu, það þurfi ekki minna heldur meira ESB, þjóðirnar fylgi ekki nægilega mikilli og samhæfðri aðhaldsstefnu ríkisfjármálum. Kenningin er ekki nógu hrein í þágu evrunnar. Takist að hreinsa hana sé björninn unninn. Sagan endurtekur sig er oft sagt, vonandi gerir hún ekki á sama hátt í þágu evrunnar og kommúnismans það er með einræði, kúgun, handtökum og aftökum.