12.11.2011

Laugardagur 12. 11. 11

Fórum í kvöld í Hörpu og sáum Töfraflautuna hjá Íslensku óperunni. Glæsileg sýning og skemmtileg í þéttsetnum sal sem fagnaði flytjendum vel og innilega.

Furðulegt er að sjá afskipti og áhyggjur bloggara Samfylkingarinnar af landsfundi Sjálfstæðisflokksins og því hvort frambjóðendur til formennsku í flokknum svari fyrirspurnum frá Kolbeini Óttarssyni Proppé (KÓP) á Fréttablaðinu eða ekki. Hann hefur sagt slíkar furðufréttir á forsíðu blaðsins meðal annars til stuðnings sjónarmiðum ríkisstjórnarinnar að vel er skiljanlegt að stjórnmálamenn úr Sjálfstæðisflokknum vilji ekki svara spurningum hans.

Spyrja má: Hvað kemur Merði Árnasyni við hvaða skoðanir menn í Sjálfstæðisflokknum hafa á mönnum og málefnum? Hvers vegna skyldi hann ekki hafa beitt sér gegn því að Jóhanna yrði sjálfkjörin formaður Samfylkingarinnar? Kannski vegna þess að hann er svona heillaður af skoðunum hennar?

Egill Helgason, álitsgjafi á samfylkingarsíðunni Eyjunni og umræðustjóri RÚV, hefur ruglað svo mikið um formannskjör á landsfundi sjálfstæðismanna undanfarna mánuði að hann á fullt í fangi með að skrifa sig frá eigin skáldskap. Það skiptir Egil engu hvaða skoðanir Sjálfstæðisflokkurinn hefur, hann býr alltaf til einhvern flöt til að finna að þeim.