10.11.2011

Fimmtudagur 10. 11. 11

Lokafund minn í ferðinni átti ég í dag í Seðlabanka Evrópu hér í Frankfurt. Segi ég frá bankanum í pistli á síðu minni.

Nú er ferð mín á vegum Evrópuvaktarinnar fyrir styrk frá alþingi til Brussel, Berlín og Frankfurt á enda.

Þetta hafa verið fróðlegar vikur. Þær leiða mér heim sanninn um að af hálfu ríkisstjórnarinnar og stuðningsmanna hennar í ESB-málinu er ekki lögð hin minnsta áhersla á að segja þjóðinn alla söguna um aðildarviðræðurnar og því síður um það sem er að gerast innan ESB.

Að sjálfsögðu skiptir framtið ESB og evru-svæðisins mestu máli en ekki hitt hvort unnt sé að hengja hatt sinn á að alþingi hafi samþykkt umsókn og leiða verði viðræður vegna hennar til lykta hvað sem það kostar.

Það er af og frá að innan ESB sé sú skoðun ríkjandi að brýnt sé að ljúka viðræðum við Íslendinga. Raunar held ég að fleiri telji eðlilegt að gera hlé á þeim eða jafnvel hætta þeim en halda þeim áfram við núverandi aðstæður. Það sanni aðeins að íslenskir ráðamenn viti ekkert um ESB að þeir skuli hamra á því að flýta viðræðunum.