28.10.2011

Föstudagur 28. 10. 11

Flugum í morgun frá Brussel til Berlínar. Við vorum svo heppin að ná í miða í kvöld í tónleikahöll þeirra Berlínarbúa, Die Philharmonie, þar sem Nikolaus Harnoncourt (f. 1929) stjórnaði Berliner Philharmoniker og kór sem flutti messu í C-dúr eftir Beethoven með kór og fjórum einsöngvurum. Eftir hlé flutti hljómsveitin síðan 5. sinfóníu Beethovens, Hrifingin var slík að Harnoncaourt var klappaður fram í salinn eftir að hljómsveitin hafði gengið af sviðinu.

Eftir þessa eftirminnilegu tónleika bauð Sir Simon Rattle, aðalstjórnandi hljómsveitarinnar, upp á síðkvöldstónleika þar sem nokkrir félagar úr hljómsveitinni léku undir hans stjórn og Magdalena Kozena, mezzoósópran og eiginkona Rattles, söng Psyché eftir Manuel de Falla og Folk Songs eftir Luciano Berio við mikla hrifningu fjölmargra áheyrenda. Tónleikagestum á fyrri tónleikunum voru boðnir þessir tæplega klukkustundar tónleikar Rattle-hjónanna sem bónus.