27.9.2011

Þriðjudagur 27. 09. 11

Fjórar forystukonur Samfylkingarinnar hafa gengið fram fyrir skjöldu í dag og veist að einstaklingum og samtökum þeirra. Þetta endurspeglar vaxandi taugaveiklun í röðum Samfylkingarinnar þar sem þingmönnum verður æ betur ljóst að Jóhanna Sigurðardóttir hefur enga stjórn á málum.

Ráðherrarnir Jóhanna Sigurðardóttir og Katrín Júlíusdóttir sætta sig ekki við að á fundi Samtaka atvinnulífsins fundu menn að aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar í efnahags- og atvinnumálum. Jóhanna sagði að fundarmenn notaði orðið „snautlegt“ um það sem fram fór á fundinum. Katrín hafði þetta að segja: „Það hlýtur að hvarfla að manni hvort menn séu orðnir svo blindaðir af flokkapólitík að menn sjái ekki raunveruleikann, og þegar ég segi blindaðir af flokkapólitík þá hefur auðvitað margt breyst. Samtök atvinnulífsins eiga ekki lengur bein handbendi inni í ríkisstjórn eins og þeir áttu áratugum saman.“

Þessi viðbrögð ráðherranna bera ekki vott um mikið jafnaðargeð og svo virðist sem þráðurinn í Jóhönnu styttist með hverju mótlæti sem hún verður fyrir. Nú hefur hún fundið það út með Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur, forseta alþingis, að setja beri þing klukkan 10.30 á laugardagsmorgni af því að séu þingfundir á laugardögum hefjist þeir á þeim tíma. Þetta er hins vegar nýmæli í sögu þinsetninga.

Þegar Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, fann að þessari tímasetningu og sagði hana til marks um ótta við almenning fékk hún reiðibréf frá Ástu Ragnheiði. Það er ekki nóg með að Samfylkingin og spunalið hennar taki andköf yfir því ef þingmenn tala oftar á þingi en þeim þykir góðu hófi gegna, þeir mega ekki heldur átölulaust lýsa skoðun sinni utan þingsalarins.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu ákveður lögregla skuli ekki standa heiðursvörð við setningu. Þetta verður Ólínu Þorvarðardóttur, þingmanni Samfylkingarinnar, tilefni til reiðilesturs í síðdegisútvarpi rásar 2. Þar sagði hún að lögreglan ætlaði ekki ætla að standa heiðursvörð við þingsetningu Alþingis á laugardag vegna óánægju með launakjör sín.

Landssamband lögreglumanna sendi frá sér yfirlýsingu vegna orða Ólínu þar sem sagði að þau væru „til þess ætluð að skaða virðingu lögreglumanna og sett fram af þekkingarleysi hennar á tildrögum þess að lögreglustjóri lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu tók ákvörðun um að heiðursvörður lögreglumanna yrði ekki staðinn við þingsetningu 1. október nk. Sú ákvörðun tengist kjarabaráttu lögreglumanna ekki á nokkurn hátt og er samtökum lögreglumanna algerlega óviðkomandi“.

Er Ólína hvött til þess að kynna sér staðreyndir málsins og biðja lögreglumenn afsökunar á ummælum sínum.