26.9.2011

Mánudagur 26. 09. 11

Í dag skrifaði ég pistil þar sem ég segi meðal annars frá stefnu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar á hendur mér vegna ritvillu sem hefur verið leiðrétt með afsökun.

Umræður um bók mína Rosabaug yfir Íslandi hafa vaknað að nýju vegna stefnu Jóns Ásgeirs. Hún á jafnmikið erindi til lesenda nú og í vor þegar hún seldist mest bóka hjá Eymundsson. Það er fróðlegt fyrir fólk að lesa bókina með það í huga að Baugsmenn hafa farið í saumana á textanum og aðeins fundið eina prentvillu til að gera að stórmáli.

Hvað sem segja má um stefnu Jóns Ásgeirs er ekki síður forvitnilegt að fylgjast með skrifum Ólafs Arnarsonar, dálkahöfundar á Pressunni. sem er greinilega ráðinn til að snúa út úr því sem ég skrifa auk þess að hafa núna fundið út að Jakob F. Ásgeirsson, rithöfundur og eigandi Útgáfufélagsins Uglu, sem gefur út bók mína hafi skrifað nafnlaust bréf sem kom við sögu Baugsmálsins. Jakob hefur mótmælt þessari ásökun Ólafs og segir hana úr lausu lofti gripna.

Fram hefur komið að ýmsir þeirra sem stóðu í stórræðum fyrir hrun og um er fjallað nú hafa ráðið sér almannatengla til að bregðast við því sem um þá er sagt opinberlega. Almennt fara menn ekki leynt með að þeir ráði sér sérfróða menn til slíkra starfa enda ekkert við það að athuga.

Hitt væri í anda Baugsmanna að ráða sér slíka málsvara á laun. Þeim kann að þykja það líklegra til árangurs en að menn viti að viðkomandi sé á launaskrá hjá þeim. Þetta væri einnig í stíl Baugsmanna. Jón Ásgeir átti til dæmis Fréttablaðið í tæpt ár án þess að frá því væri skýrt eða við því gengist. Þá var blaðinu beitt til að koma höggi á þá sem Jón Ásgeir taldi sér andstæða og tók Reynir Traustason, núverandi ritstjóri DV, þátt í þeirri „blaðamennsku“. Hann grípur nú til títuprjóna sinna til að gleðja Baugsmenn með árásum á þá sem þeir telja sér til óþurftar.  Allt gerist þetta fyrir opnum tjöldum og er augljóst þeim sem vilja sjá það. Forvitnilegt væri að vita hvað gerist á bakvið tjöldin.