11.9.2011

Sunnudagur 11. 09. 11

Hermitage-safnið í St. Pétursborg er eitt þriggja höfuðsafna heims við hliðina á Louvre í París og British Museum í London. Hermitage-safnið er fremst á meðal jafningja að því leyti að það sameinar umgjörð og gripi á einstakan hátt. Að ganga um hallirnar sem mynda safnið er ævintýri líkast, dýrgripirnir sem sýndir eru setja síðan punktinn yfir i-ið.

Hermitage, hvers vegna þetta nafn á safni? Katrín II. Rússakeisaraynja vildi hafa næði og geta verið ein með sjálfri sér eða kannski einhverjum af 54 elskuhugum sínum. Hermit er sá sem leitar einveru, hermitage er franska orðið yfir tvílyft hús þar sem ekki er unnt að komast á efri hæðina nema í lyftu og eigandinn stjórnar því hver fer inn í lyftuna og kemst því upp á efri hæðina. Þannig hús lét Katrín II. reisa við hliðina á Vetrarhöllinni sem forveri hennar, Elísabet I., gerði að rússneskri keisarahöll.

Hið undarlega er að allir þessi dýrgripir og byggingarnar skuli hafa lifað kommúnismann og 900 daga umsátur Hitlers um borgina. Ný bók um umsátrið, reist á nýjum gögnum eftir hrun Sovétríkjanna, sýnir að hörmungar borgarbúa hafi jafnvel verið verri en áður var vitað.

Í Hermitage-safninu eru nú málverk sem Sovétmenn hirtu á sínum tíma við ósigur Hitlers. Ekki heyrðust staðfestar fréttir um listaverkin fyrr en eftir fall Sovétríkjanna 1991. Þegar farið er um sýningarsalina sem geyma þessar myndir má hvorki taka ljósmynd né video-mynd. Óljóst er um eignarréttinn á myndunum og talið er að myndir af þeim kunni að ýta undir deilur um hann.