28.8.2011

Sunnudagur 29. 08. 11

Miðvikudaginn 24. ágúst ræddi ég við Orra Hauksson, framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins, í þætti mínum á ÍNN og má horfa á samtalið hér.

Í Landanum í RÚV í kvöld var Geir Jón Þórisson, yfirlögregluþjónn á höfuðborgarsvæðinu, spurður að því hvers vegna hann teldi fólk á mannamótum, hvaða tilgangi það þjónaði. Geir Jón sagði réttilega að það þjónaði engum tilgangi hann gerði það bara vegna þess að fjölmiðlamenn spyrðu stöðugt um slíkar tölur.

Satt að segja er stórundarlegt hve mikla áherslu fréttastofa RÚV leggur á að upplýsa hlustendur sína um hve margir sóttu hina eða þessa skemmtunina eða bæjarhátíðina. Hvaða tilgangi þjónar þessi tölfræði fyrir þá sem sitja við viðtækin? Fjöldinn skiptir ef til vill máli fyrir þá sem hafa fjárhaglegan hag af því að selja aðgangseyri og heilbrigðis- eða skattayfirvöld auk þess sem lögreglu og björgunarsveitum kemur vel að fá slíkar upplýsingar - en hverjum öðrum? Er tölfræðin liður í því að ýta undir meting eða samkeppni?

Við því hefði mátt búast að ný kynslóð fréttamanna á RÚV hætti að flytja staðlaðar helgarfréttir um þá sem settir eru í fangaklefa, teknir ölvaðir eða  trufla nágranna með hávaða í heimahúsum. Hefðin er hins vegar rík og að þessu leyti breytist ekkert ár frá ári.