24.7.2011

Sunnudagur 24. 07. 11.

Í morgun klukkan 09.00 sá ég beina útsendingu í danska sjónvarpinu frá messu í dómkirkjunni í Ósló þar sem minnst var voðaverkanna í borginni og Útey föstudaginn 22. júlí. Ég dáist af Jens Stoltenberg forsætisráðherra fyrir framgöngu hans og ávarp við athöfnina.

Mér þótti merkilegt að lesa í franska blaðinu Le Monde að í Noregi hefðu ekki verið lögfestar reglur um samræmd viðbrögð á hættutímum heldur er brugðist við hverju tilviki ad hoc það er eftir aðstæðum hverju sinni. Í tíð minni sem dómsmálaráðherra voru sett ný almannavarnalög þar sem meðal annars er mælt fyrir um viðbrögð í samræmi við hættustig eins og er í Frakklandi og fjölda annarra ríkja.

Í erlendum netmiðlum má lesa um spurningar til norsku lögreglunnar vegna þess að það tók hana 60 mínútur [ekki 90 mínútur eins og ég sagði hér á síðunni í gær] að komast í Útey.