12.7.2011

Þriðjudagur 12. 07. 11.

Forystumenn allra flokka á breska þinginu hafa nú tekið höndum saman gegn fjölmiðlakónginum Rupert Murdoch eftir að upplýst hefur verið um gagnrýnisverð vinnubrögð á blöðum Murdochs. Murdoch-miðlarnir eru allir undir smásjánni og því er jafnvel spáð að Murdoch ákveði að selja blöð sín í Bretlandi til að losna undan þeim mikla þrýstingi sem er á hann þar.

Að leiðtogar allra bresku stjórnmálaflokkanna sameinist á þann veg sem nú hefur gerst er mjög sjaldgæft og fjölmiðlamenn segja að það gerist ekki nema þegar mikil vá steðjar að þjóðinni, eins og á stríðstímum. Augljóst er að í skjóli Murdochs, vináttu hans við stjórnmálaleiðtoganna í áranna rás og miskunnarlausri meðferð á þeim sem ekki njóta náðar, hafa ritstjórar og blaðamenn talið sig geta farið sínu fram á þann veg sem þeim sjálfum sýndist við öflun frétta.

Eins menn sjá í bók minni Rosabaugi yfir Íslandi  þar sem ítarlega er sagt frá Baugsmiðlunum og hvernig þeim var beitt í þágu eigenda sinna einkenndust skrifin oft af dæmalausu yfirlæti og óvild í garð þeirra sem blaðamenn töldu andvíga eigendum miðlanna. Hér á landi tókst hins vegar ekki að mynda samstöðu á stjórnmálavettvangi til að setja hæfilegar skorður við eignarhaldi á fjölmiðlum. Þvert á móti lauk tilraun þáverandi ríkisstjórnar til þess á árinu 2004 á þann veg að hinir umsvifamiklu fésýslumenn töldu sig hafa fengið meira svigrúm frekan en minna.

Samþjöppun á íslenskum fjölmiðlamarkaði er enn meiri en góðu hófi gegnir. Nýlega færði 365, kjarni Baugsmiðlanna gömlu, sig meira að segja upp á skaftið með því að eignast stóran hlut í tímaritaútgáfufyrirtækinu Birtíngi. Í umsögnum um bók mína hefur birst viðleitni til að verja óbreytta stöðu á íslenskum fjölmiðlamarkaði og enn þann dag í dag er fundið að því að ég noti orðið Baugsmiðlar.

Eftir bankahrunið og vegna þess sem gerðist í aðdraganda þess hafa verið háar kröfur um að stjórnmálamenn og fjármálamenn geri hreint fyrir sínum dyrum. Með nokkrum ólíkindum er að hins sama sé ekki krafist af fjölmiðlamönnum. Margt af því sem sumir þeirra tóku sér fyrir hendur verður aldrei unnt að rúma innan ramma hefðbundinnar blaðamennsku.