6.7.2011

Miðvikudagur 06. 07. 11.

Mikið uppnám er í Bretlandi vegna uppljóstrana um að blaðamenn News of the World víðlesnasta götublaðs landsins hafi hlerað síma til að afla sér frétta. Þeir hafi fengið einkaspæjara og tölvuþrjóta í lið með sér við þessa skammarlegu fréttaöflun auk þess sem þeir hafi keypt upplýsingar af rannsóknarlögreglumönnum sem unnu við sakamál í sviðsljósinu á hverjum tíma. David Cameron forsætisráðherra ætlar að stofna til opinberrar rannsóknar á málinu. Hann er hvattur til að fela öðrum en lögreglunni að stjórna rannsókninni því að hún sé ekki óhlutdræg.

Þetta er í raun ótrúlegt mál og ber breskri götublaðamennsku ekki gott vitni. News of the World er í eigu fjölmiðlakóngsins Ruperts Murdochs. Hann á fleiri fjölmiðla í Bretlandi til dæmis Sky News og The Times. Í umræðum um þetta hneyksli tala menn um the Murdoch press í Bretlandi. Hvort starfsmenn Murdoch-miðlanna líta á það sem móðgun að vinnustaðir þeirra skuli kenndir við eigandann þekki ég ekki. Hitt veit ég að hér líta margir á það sem móðgun ef þeir eru sagðir vinna á Baugsmiðlunum. Forvitnilegt væri að einhver tæki sér fyrir hendur að greina hvers vegna það fer svona illa í marga að fjölmiðlarnir sem Baugur átti séu kenndir við eiganda sinn.

Murdoch press segja menn til að minna á hið mikla fjölmiðlaveldi Murdochs. Á sínum tíma var talað um Springer Press í Þýskalandi og var þar meðal vísað til Die Welt og Bild í eigu Axels Springers. Þá eru fjölmiðlar kenndir við Schibsted-gruppen í Noregi og Bonnier Press er í Svíþjóð.  Þannig má lengi telja því að víða eru fjölmiðlar kenndir við eigendur sína enda eru þeir einnig oft andlit þeirra út á við eins og Murdoch eða Sulzberger-fjölskyldan fyrir The New York Times og Katherine heitin Graham fyrir The Washington Post. 

Hið sérkennilega væl hérna vegna þess að talað er um Baugsmiðla er aðeins til marks tilraunir til draga athygli að hreinum aukaatriðum í umræðum um þjóðfélagsmál. Í raun snúast þær alltof mikið um þau atriði af því að menn annað hvort forðast kjarna málsins eða skortir hæfni til að átta sig á honum.