3.7.2011

Sunnudagur 03. 07. 11.

Nú er samtalsþáttur minn með Einari Má Guðmundssyni á ÍNN kominn á netið og má sjá hann hér.

Í dag skrifaði ég pistil hér á síðuna í tilefni af frétt um að Össur Skarphéðinsson teldi Íslendinga ekki þurfa neina sérlausn í sjávarútvegsmálum gagnvart ESB kæmi til aðildar. Með þeim orðum lýsir hann yfir rétti ESB til fara með stjórn innan 200 mílna lögsögunnar  við Ísland. Hér má lesa pistilinn.

Á Evrópuvaktinni birtist í dag frétt um að hinn 3. júlí hafa þjóðir ESB neytt alls þess fisks sem er veiðanlegur í lögsögu ESB. Fiskneysla þeirra í tæpt hálft ár byggist á innfluttum fiski eða fiski sem veiddur er á úthafinu eða í  lögsögu annarra ríkja. ESB-þjóðirnar hafa eyðilagt fiskimið sín með ofveiði. Hvaða erindi eiga Íslendingar í þennan félagsskap? Er ekki betra að ráða sjálfur yfir auðlind sinni í sjónum, nýta hana á skynsamlegan hátt undir stjórn eigin vísindamanna, samkvæmt ákvörðunum eigin stjórnvalda en flytja þessa ráðgjöf og pólitísku ákvarðanir í hendur þeirra sem hafa eyðilagt fiskimiðin við strendur ESB-ríkjanna? Er ekki meiri arðsemi í því fólgin að Íslendingar nýti fiskstofna við Ísland og selji afurðirnar til hæstbjóðenda en gerast styrkþegi samkvæmt misheppnaðri sjávarútvegsstefnu ESB?