25.5.2011

Miðvikudagur 25. 05. 11.

Í dag var bók minni Rosabaugur yfir Íslandi dreift í bókaverslanir. Þá hafa einnig birst tilvitnanir í hana á mbl.is, Pressunni og Eyjunni auk hefðbundins smælkis á dv.is. Ég hef ekki rekist á neitt efni á gamla Baugsmiðlinum visir.is. Ef til vill hef ég ekki skoðað hann nógu vel. Ég skrifaði pistil um tilurð bókarinnar hér á síðuna.

Á samfylkingarsíðunni Eyjunni hafa bloggarar tekið upp hanskann fyrir Samfylkinguna. Þeir láta eins og tengsl hennar við Jón Ásgeir og Jóhannes í Bónus hafi ekki verið nein þar sem þeir hafi ávallt verið sjálfstæðismenn. Þessi kenning stenst ekki skoðun og er fyrir mig enn ein staðfestingin á réttmætti þess að verja tíma og kröftum í að taka bókina um Baugsmálið saman.

Í hádeginu stjórnaði ég fundi í Háskóla Íslands á vegum Heimssýnar og Alþjóðamálastofnunar HÍ þar sem dr. Anthony Coughlan, fyrrverandi prófessor, frá Írlandi flutti fróðlegt erindi um Íra og evruna og lærdóm af reynslu þeirra fyrir okkur Íslendinga. Hann er eindreginn talsmaður þess að þjóðir ráði yfir eigin gjaldmiðli.

Fundurinn var vel sóttur. Mér kom á óvart að þarna voru nokkrir félagar í Evrópusamtökunum sem lásu fyrirfram samdar spurningar í því skyni að setja skoðanir fyrirlesarans í neikvætt ljós auk þess sem þau vildu minna fundarmenn á að hann væri ekki endilega í takt við meirihlutaskoðun meðal Íra. Þessi skipulagða hóphyggja ESB-aðildarsinna er líklega stunduð í þágu upplýstrar umræðu. Hún virkaði hlægileg ef ekki barnaleg á mig.