23.5.2011

Mánudagur 23. 05. 11.

Veðráttan og eldgosið er ekki beinlínis til þess fallið að koma manni í sumarskap. Myndir frá öskusvæðinu segja ekki nema hálfa söguna. Óþægindin af því að búa við þessar aðstæður komast aldrei til skila á sjónvarpsskjánum. Kristján Már Unnarsson gerði þó vissulega sitt besta til þess sýna þau í upphafi fréttatímans á Stöð 2 í kvöld þegar hann stóð í öskuroki á Kirkjubæjarklaustri.

Fyrir ári beindist athyglin að sveitinni undir Eyjafjöllum vegna öskufalls úr Eyjafjallajökli. Þá lá í loftinu að hoggið yrði skarð í byggðina þar, jafnvel bárust fréttir frá Þorvaldseyri um að þar kynnu menn að bregða búi. Nú er unnt að fara að bænum og skoða sýningu sem bændur hafa opnað þar til sýna ferðafólki hvað gerðist vorið 2010.

Ég hef hitt Íslending sem fór með útlendinga að Þorvaldseyri, horfði á kvikmynd sem þar er sýnd í skálanum um Eyjafjallajökulsgosið. Þótti þeim öllum að vel hefði til tekist og mælti viðmælandi minn með sýningunni. Vonandi tekst að vinna á jafn farsælan hátt úr því sem nú er að gerast vegna gossins í Grímsvötnum.

Bók mín Rosabaugur yfir Íslandi kemur út á miðvikudag og verður í stærstu bókabúðum næsta fimmtudag. Meira að segja Hagkaup tekur hana í sölu hjá sér. Nýir eigendur ráða nú fyrirtækinu. Í tíð fyrri eigenda beittu þeir  valdi sínu til að hindra dreifingu á rituðu máli sem þeim var ekki að skapi.