21.5.2011

Laugardagur 21. 05. 11.

Flaug heim frá Brussel í dag um Kaupmannahöfn. Allir tímar stóðust hjá SAS og Icelandair.

Boðskapurinn frá ESB er nú sá að evran sé komin á lygnan sjó enda sé efnahagur evru-ríkjanna að styrkjast. Össur Skarphéðinsson talar á þann veg í viðtali við Pressuna í dag.

Þjóðverjar hafa sannfærst um að það sé betra fyrir þá að láta Grikki hafa meira fé og gefa þeim tvö ár til að búa lánardrottna undir afskriftir á  skuldum. Yrði gengið hart að Grikkjum núna stæðust þeir ekki þrýstingin og við það mundu þýskir bankar tapa miklu fé sem bitnaði að lokum á þýskum skattgreiðendur. Sú skoðun ræður nú að byrði Þjóðverja yrði minni með því að lengja í skuldaól Grikkja en herða hana.