21.4.2011

Fimmtudagur, 21. 04. 11.


Gleðilegt sumar!

Samtal mitt við Sigríði Andersen á ÍNN miðvikudaginn 20. apríl er komið á netið og má sjá það hér.

Hinn 2. mars þegar Advice-hópurinn hélt blaðamannafund í Þjóðmenningarhúsinu til að kynna upphaf skipulagðrar baráttu sinnar gegn Icesave III kom enginn fjölmiðlamaður á fundinn. Sigríður segir að það hafi ekki dregið kjarkinn úr hópnum. Þá segir hún að þau hafi aðeins hist tvisvar á hefðbundnum fundi, annars hafi þau ráðið ráðum sínum í gegnum Skype, Dropbox og Google.docs, svo að ég vitni einnig í samtal okkar eftir að upptöku lauk.

Meira en 10.000 manns opnuðu og kynntu sér fyrirlestur Reimars Péturssonar, hrl., um Icesave á netinu. Hann var tekinn upp í Háskóla Íslands á snjallsíma og síðan settur á netið.

Ég tel að barátta Advice sé fyrsta kosningabaráttan sem háð er á rafrænan hátt og án þess að byggjast á kynningarfundum með aðgangi að fjölmiðlum. Netið og þau tæki og sú tækni sem því tengjast sönnuðu þarna gildi sitt í baráttu til stuðnings flóknum málstað sem átti undir högg að sækja þegar hafist var handa við að sannfæra almenning um ágæti hans.

Auglýsingar Advice voru mun málefnalegri og betur gerðar en boðskapur Áfram-hópsins sem sagði já. Hræðsluáróður já-hópsins var ömurlegur og sannast með hverjum degi að hann átti ekki við rök að styðjast. Er óskiljanlegt hve margir alþingismenn létu blekkjast af þessum ósannindum. Ég fjallaði um þetta á leiðara á Evrópuvaktinni í dag og hann má lesa hér.