18.4.2011

Mánudagur 18. 04. 11.

Samfylkingin þrífst ekki nema hún hafi eitt mál á döfinni sem sameinar flokkinn. Árin 2003 til 2007 skipaði hún sér með Baugsmönnum gegn Sjálfstæðisflokknum og naut stuðnings Baugsmiðlanna. Síðan kom ESB-aðildin og knúið var á hana með vaxandi þunga eftir hrun bankanna, þegar flokkurinn gat ekki stuðst lengur við Baug. Ríkisstjórnin var mynduð með VG til að vinna að ESB-aðildinni. Nú verður ekki gengið lengra á þeirri braut. Þá tekur Össur Skarphéðinsson til við að ræða um kvótamálið og vill gera það að höfuðmáli með kröfu um þjóðaratkvæðagreiðslu.

Sé ætlunin að halda lífi í ríkisstjórninni með kröfunni um að kollvarpa kvótakerfinu, er tímabært að hefja umræður um þá staðreynd, að Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon sátu í ríkisstjórninni 1990 þegar kvótakerfið var fest í sessi með því heimila sölu á kvóta.