31.3.2011

Fimmtudagur 31. 03. 11.

Í hádeginu flutti Niklas Granholm, öryggismálafræðingur frá Svíþjóð, erindi á vegum Varðbergs og fleiri aðila í Háskóla Íslands. Frásögn af erindinu má lesa hér.

Granholm dvelst hér í nokkra daga til að kynna sér stöðu landsmála. Hann sagðist draga þá ályktun af samtölum sínum að á stjórnmálavettvangi tækjust menn á við mikinn vanda án þess að hafa nokkra haldbæra lausn á takteinum. Þetta skapaði óneitanlega óvissu út á við. Enginn vissi í raun heldur hve vandinn yrði langvinnur.

Sumir láta eins og með því að segja já við Icesave III sé tekið á þessum vanda. Það er fráleit skoðun og aðeins blekking af hálfu ríkisstjórnarinnar og stuðningsmanna hennar í málinu. Ríkisstjórnin sjálf er meginmeinsemdin. Jóhanna Sigurðardóttir átti aldrei neitt erindi í embætti forsætisráðherra eins og síðustu tvö ár hafa sannað. Hroki hennar eykst eftir því sem hún einangrast meira. Jafnframt vex ábyrgð þingflokks Samfylkingarinnar sem tryggir henni ráðherravöld.

Firring þingmanna Samfylkingarinnar birtist nú í því að Róbert Marshall, formaður allsherjarnefndar alþingis, gerir því skóna að til álita komi að nefndin ræði í alvöru eða jafnvel samþykki að selja íslenskan ríkisborgararétt. Meðal röksemda sem hann notar er að alþingi hafi samþykkt ríkisborgararétt sinn eftir meðferð í allsherjarnefnd.

Róbert virðist ekki sjá neitt athugavert við að flytja hingað inn hóp fólks sem er kynnt til sögunnar sem ný tegund af útrásarvíkingum, sem vilji nota fjármuni sína til að kaupa sig frá löndum þar sem raforka er framleidd með kjarnorku eða stunduð er hermennska. Að þetta séu hinar raunverulegu ástæður er lítt trúverðugt þegar til þess er litið að umboðsmaður kaupanda ríkisborgararéttarins greip á lofti mál sem nú eru helst í fréttum vegna jarðskjálftans í Japan og átakanna í Líbýu.