30.3.2011

Miðvikudagur 30. 03. 11.

Hér hefur verið rakið undanfarna daga hve klofin ríkisstjórnin er vegna aðildar Íslands að átökunum í Líbýu sem aðildarríki NATO. Jóhanna Sigurðardóttir var spurð um andstöðu vinstri-grænna við afstöðu ríkisstjórnarinnar þar sem þeir eiga sæti og svaraði hún: „Það er þeirra mál.“ Þetta svar er dæmigert fyrir Jóhönnu og með ólíkindum sé það tekið gott og gilt af stjórnarandstöðunni.

Hið sama gerist hins vegar vegna ágreinings innan ríkisstjórnarinnar um Líbýu og í öðrum ágreiningsmálum að stjórnarandstaðan tekur að sér hlutverk varadekks fyrir stjórnina á alþingi og tryggir meirihluta þar. Þetta sífellda hjálparstarf stjórnarandstöðunnar hefur því miður dregið úr biti hennar svo að ekki sé kveðið fastar að orði.

Furðulegt er að lesa þau ummæli höfð eftir Kjartani Magnússyni, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, í Fréttablaðinu í dag, að það auki vanda Orkuveitu Reykjavíkur (OR) að Bjarni Bjarnason hafi verið ráðinn forstjóri fyrirtækisins. Skyldi Kjartan sakna Alfreðs Þorsteinssonar sem ýtti skuldasöfnun OR af stað með Guðmundi Þóroddssyni? Mér er óskiljanlegt að sjálfstæðismenn í borgarstjórn hafi ekki skapað skarpari skil gagnvart stjórnarháttum Alfreðs þegar þeir tóku forystu í stjórn OR árið 2006.