24.3.2011

Fimmtudagur 24. 03. 11.

Flugum frá París í dag með Icelandair, í fullsetinni vél. Mér var sagt að frá því í október hefðu nær allar vélar Icelandair frá París verið þéttsetnar. Hins vegar heyrðum við tilkynnt að í SAS-flugi til Stokkhólms væru svo fáir farþegar að þeir mættu sitja þar sem þeir vildu í vélinni.

Jóhanna Sigurðardóttir sagði þingmönnum í dag að fagmennska hennar við að velja skrifstofustjóra í forsætisráðuneytið fælist í því að ráða ekki Önnu Kristínu Ólafsdóttir, af því að hún væri flokkssystir sín. Þar með sagðist Jóhanna sætta sig við að hafa brotið jafnréttislög. Vitleysan sem veltur upp úr Jóhönnu vegna þessa máls tekur engan enda. Sannast enn að hún hefur enga burði til að sitja í embætti forsætisráðherra, að minnsta kosti ekki með Hrannar B. Arnarson sem ræðuritara sinn.

Anna Kristín var hægri hönd Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur sem borgarstjóra og síðar aðstoðarmaður Þórunnar Sveinbjörnsdóttur í umhverfisráðuneytinu. Jóhanna skipaði Önnu Kristínu formann í nefnd til að endurskipuleggja stjórnarráðið. Arnar Þór sem fékk skrifstofustjórastarfið í forsætisráðuneytinu sat í nefndinni undir formennsku Önnu Kristínar.

Þegar kvartað er til Kærunefndar jafnréttisnefndar kann ýmislegt að búa að baki. Líklegast er að réttlát reiði þess sem fékk ekki starf ráði mestu um kvörtunina. Þá kann að koma til hvatning frá öðrum. Anna Kristín kom úr Kvennalistanum sáluga inn í Samfylkinguna. Jóhanna Sigurðardóttir kom hins vegar úr eigin flokki, Þjóðvaka. Endurpeglar kvörtun Önnu Kristínar spennu og klofning í Samfylkingunni?