19.3.2011

Laugardagur 19. 03. 11.

Mikill mannfjöldi var á bókasýningunni hér í París, Salon du Livre, þegar ég gekk þar um í nokkra klukkutíma um hádegisbilið í dag. Hvarvetna liggur fram séreintak af Le Magazine Littéraire sem er gefið út í tilefni sýningarinnar og heitir Les littératures nordiques, norrænar bókmenntir. Þar er sérstök kynning á 40 norrænum höfundum sem boðið er til sýningarinnar. Fjórir eru íslenskir: Auður Ava Ólafsdóttir, Árni Þórarinsson, Jón Kalman Stefánsson og Steinunn Sigurðardóttir. Er stórt rými á sýningunni helgað norrænum bókmenntum.

Franska blaðið Le Monde gefur út blaðauka um norrænar bókmenntir sem auk þess að fylgja blaðinu til kaupanda þess er dreift ókeypis á bókasýningunni. Í fyrstu opnu þess er grein eftir Sjón - bréfi til hans sjálfs. Þar er einnig grein um Ísland og íslenskar bókmenntir eftir Nils C. Ahl undir fyrirsögninni Promenade au paradis des écrivains - skemmtiganga í paradís rithöfunanna, en Ahl lýsir Íslandi í senn sem curioisté frá náttúrunnar hendi og paradís rithöfunda.

Á meðan ég gekk um bókasýningunna bárust fréttir af frönskum orrustuþotum yfir Líbýu og fundi Nicolas Sarkozys með fulltrúum hinna „viljugu“ gegn Gaddafi. Hvergi sáust nein merki um að almenningur á götum Parísar léti þessi tíðindi nokkuð á sig fá. Hvorki á sýningunni né í jarðlestunum virtist hafa verið gripið til sérstakra öryggisráðstafna vegna hugsanlegra stríðsaðgerða í Líbýu. Gaddafi er þó til alls vís í því skyni að halda í völdin.

Í Le Figaro er fullyrt að það hafi verið heimspekingurinn og fjölmiðlastjarnan Bernard-Henry Lévy (BHL) sem hafi knúið Sarkozy til dáða gegn Gaddafi með aðstoð heimamanna en BHL fór til Benghazi í Líbýu sem blaðamaður, hitti þar einn af leiðtogum uppreisnarmanna. Fór með hann á fundi Sarkozys og síðan tóki boltinn að rúlla þar til öryggisráðið gaf grænt ljós á hernaðaraðgerðir.

Frakkar taka því þunglega að Þjóðverjar sitja hjá vegna Gaddafis og í Le Monde er  talið að það minnki stuðning Frakka við að Þjóðverjar fái fast sæti í öryggisráðinu.