21.2.2011

Mánudagur 21. 02. 11.

Það snjóaði í Boston í nótt og fram eftir degi. Frostið var þess vegna ekki eins mikið í dag og það hefur verið. Það sést við gangstéttar að miklum snjó hefur verið rutt af götum í vetur. Hann virðist fyrst að bráðna núna og því fylgja mikil óþrif á fáförnum götum.

Ég átta mig ekki á því hvers vegna hættulegra er talið að láta reyna á rétt Íslendinga í Icesave málinu fyrir dómi en almennt þegar deilt er um skuldir og óvissa talin ríkja um greiðsluskyldu. Annað hvort er hún fyrir hendi eða ekki. Sé hún fyrir hendi kemst dómarinn að þeirri niðurstöðu.

Hvort dómarar taki sér síðan fyrir hendur að ákveða á hvern hátt skuldin skuli greidd er annað mál. Hafi aðilar komið sér saman um einhver kjör á endurgreiðslu áður er dómur um greiðsluskylduna féll, er eðlilegt að dómari taki tillit til þess og slái því föstu að það samkomulag haldi. Vilji annar hvor aðili málsins ekki sætta sig við þá niðurstöðu kann að reyna á þann þátt sérstaklega.

Minnst þykir mér til þeirra sjónarmiða koma í Icesave-málinu, að best sé að ljúka því, þar sem það hafi svo lengi vakið deilur.