12.2.2011

Laugardagur 12. 02. 11.

Á Evrópuvaktinni er vakin athygli á því í dag að Magnús M. Norðdahl, hrl., lögfræðingur ASÍ og gjaldkeri Samfylkingarinnar, skrifar mjög harðorða grein um Svandísi Svavarsdóttur, umhverfisráðherra, á vefsíðu Herðubreiðar sem er málgagn samfylkingarfólks. Í grein sinni gengur Magnús gegn sjónarmiði Jóhönnu Sigurðardóttur, formanns Samfylkingarinnar og forsætisráðherra, sem gerir ekki athugasemd við framgöngu Svandísar.

Það er dæmigert fyrir fátæklega pólitíska fréttamennsku hér á landi og skort fjölmiðlamanna á auga fyrir því sem er fréttnæmt á stjórnmálavettvangi að ekki skuli vakin athygli annars staðar á þessum ágreiningi um stöðu umhverfisráðherra á æðstu stöðum innan Samfylkingarinnar.

Í morgun sat ég fyrir svörum á útvarpi Sögu Lúðvíki Lúðvíkssyni og ræddum við um afstöðuna til ESB. Í gær var á hinn bóginn rætt við mig í Víðsjá á rás 1 hjá RÚV í tilefni af því að 6. febrúar voru 100 ár liðin frá fæðingu Ronalds Reagans, forseta Bandaríkjanna. Mér var ljúft að taka þátt í því að leggja mat á hlut Reagans í sögunni. Ég tel hann í hópi merkustu forseta Bandaríkjanna.