9.2.2011

Miðvikudagur 09. 02. 11.

Í dag ræddi ég við Unni Brá Konráðsdóttur, þingmann Sjálfstæðisflokksins úr suðurkjördæmi, í þætti mínum á ÍNN og var samtalið sýnt í fyrsta sinn klukkan 20.00 í kvöld síðan verður það að nýju klukkan 22.00 og síðan á tveggja tíma fresti þar til klukkan 18.00 á morgun fimmtudag. Unnur Brá er skelegg í málflutningi sínum og enginn þarf að efast um skoðanir hennar í atvinnumálum, ESB-málum og Icesave-málinu eftir að hafa hlustað á þáttinn.

Charlemagne er dulnefni blaðamanns The Economist sem skrifar reglulega dálk í blaðið um málefni Evrópusambandsins. Í nýjasta hefti ræðir hann um Cathy Ashton, utanríkisráðherra ESB, sem er í nokkurs konar tilvistarkreppu en utanríkisþjónusta ESB hóf störf formlega störf um síðustu áramót. Charlemagne segir að Ashton hafi verið svo óheppin að koma að nýju embætti sínu þegar stækkun ESB væri ekki líkleg til að valda breytingum innan þess, þar sem fyrir utan Króatíu og hugsanlega fáein Balkanríki hafi stækkunarferli ESB meira og minna stöðvast (EU enlargement has more or less ground to a halt).

Charlemagne hefur ekki fyrir því að nefna Ísland til sögunnar þegar hann minnist á stækkun ESB. Annað hvort er hann þeirrar skoðunar að hún skipti í raun engu máli og þess vegna taki því ekki að nefna hana eða hann telur að til aðildar Íslands komi ekki. Ég hallast að síðari skýringunni. Í Brussel hljóta menn að gera sér grein fyrir því, hvað sem líður túlkunum formanns íslensku viðræðunefndarinnar á áhuga Íslendinga á því að ljúka viðræðum við ESB, að meðal þjóðarinnar er enginn áhugi á efni málsins, það er aðildinni sjálfri. Ef einhverjir sjá á hve veikum ís íslensk stjórnvöld eru í tali sínu um eðli viðræðnanna við ESB eru það embættismennirnir í Brussel. Þeir hika heldur ekki við að leiðrétta það sem íslenskir ráðherrar segja á blaðamannafundum með þeim.
Á mánudaginn minnti Olli Rehn á það á blaðamannafundi með Árna Páli Árnasyni, efnahags- og viðskiptaráðherra, að enginn gæti stytt sér leið inn í evru-landið, öllum skilyrðum yrði að að verða fullnægt áður en til inngöngu kæmi. 27. júlí minnti Stefan Füle, stækkunarstjóri ESB, Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, á að engar varanlegar undanþágur yrðu veittar frá sjávarúrvegsstefnu ESB.