3.2.2011

Fimmtudagur 03. 02. 11.

Hosni Mubarak, forseti Egyptalands, sagðist í kvöld  við ABC News hafa fengið nóg af því að sitja í embætti sínu, hann gæti þó ekki hætt, því að þá lenti stjórn landsins í höndum Bræðralags múslíma og það mætti ekki gerast í Egyptalandi. Varaforseti Egyptalands sagði í sjónvarpssamtali fyrr í dag að hann hefði boðið fulltrúum frá bræðalaginu til viðræðna um stjórn landsins en þeir hefðu hikað.

Augljóst er að Mubarak situr eins lengi og hann, stuðningsmenn hans og herinn telja það nauðsynlegt til að völdin færist í hendur einhvers sem heldur borgaralegri stjórn í landinu eða í hendur hersins frekar en Bræðralags múslíma. Mubarak er hershöfðingi sem  hefur setið  að völdum í 30 ár.

Alþingi samþykkti Icesave-frumvarpið eftir aðra umræðu í dag, þorri þingmanna Sjálfstæðisflokksins greiddi atkvæði með ríkisstjórninni, fjórir sátu hjá og einn á móti. Ég skrifaði um málið á Evrópuvaktina og mælti með því að lögin yrðu lögð undir þjóðina til endanlegrar afgreiðslu. Mér finnst rökin fyrir því augljós. Þjóðin hafnaði Icesave-samningunum 6. mars 2010 á eftirmannalegan hátt. Þingið tók málið þá aftur í sínar hendur. Þingmenn eiga að sjálfsögðu að gefa þjóðinni tækifæri til að segja álit sitt á málinu að nýju.

Ákvörðun um að vísa málinu til lokaafgreiðslu hjá þjóðinni skapar ekkert fordæmi, af því að meðferð þessa máls er fordæmalaust í stjórnlagasögunni. Eftir að Ólafur Ragnar stöðvaði fjölmiðlalögin flutti ríkisstjórn Davíðs Oddssonar breytingu á fjölmiðlalögunum. Framsóknarmenn óttuðust að Ólafur Ragnar mundi hafna þeim líka og sendu Guðna Ágústsson, varaformann sinn, til Bessastaða 19. júlí 2004 til leynilegra viðræðna við Ólaf Ragnar. Við svo búið var fjölmiðlalögunum enn breytt og loks samþykkt í þeirri mynd að þau snerust aðeins um útvarpsréttarnefnd.

Þegar Lee Bucheit, formaður samninganefndar Íslands, kynnti niðurstöðuna samningaviðræðnanna mátti skilja á máli hans að hann hefði kosið að málið færi fyrir þriðja aðila til að ákvarða lögmætið í málinu. Ég er þeirrar skoðunar að á það hefði átt að reyna. Vissulega ber að virða rétt þingmanna til að taka sínar ákvarðanir í málinu. Úr því að þeir vilja ekki beina því til hlutlauss dómara eiga þeir að sjá sóma sinn í því að leggja það undir þjóðina, umbjóðendur sína.