2.2.2011

Miðvikudagur 02. 02. 11.

Ótrúlegt er að sjá ruglið og ósannindin sem velta upp úr nafnleysingjum á netinu eftir að ég sagði að í sporum Ögmundar Jónassonar sem dómsmálaráðherra hefði ég tekið pokann minn ef hæstiréttur hefði ógilt kosningar á minni ráðherravakt. Fremstur meðal jafningja í ruglinu er Egill Helgason, höfuðbloggari Eyjunnar, og tvöfaldur þáttastjórnandi á RÚV. Hann kveikti umræðuþráð fyrir hjörðina sem honum fylgir og ræðst á fólk í skjóli nafnleyndar með lygi og rógi.

Ögmundur Jónasson á í vök að verjast í þessu máli. Hann hefur farið offari í gagnrýni sinni á hæstarétt eftir að niðurstaða réttarins birtist. Ögmundur segir í öðru orðinu að niðurstöðu réttarins beri að virða en hinu að sé einhver ábyrgur fyrir því að kosningarnar séu ógildar sé það hæstréttur ekki síður en hann sjálfur.

Þegar Ögmundur var í þættinum Sjálfstæðu fólki á Stöð 2 á dögunum sagðist hann í fyrsta lagi líta á sig sem sósíalista og öðru lagi sem anarkista, það er stjórnleysingja. Athafnir hans eftir ógildingu stjórnlagaþingskosninganna benda til að anarkimsinn sé að ná yfirhöndinni í stjórnmálastarfi innanríkisráðherrans.

Ögmundur hefur birt svar við mati okkar þriggja fyrrverandi ráðherra Sjálfstæðisflokksins sem hnígur í þá átt, að honum beri að segja af sér vegna kosningaklúðursins. Hann svarar að sjálfsögðu ekki málefnalega heldur með skætingi. Meðal annars þeim að ég hafi á sínum tíma sagt, þegar kærunefnd jafnréttismála gaf út álit með ávirðingum á mig vegna þess að ég skipaði ekki Hjördísi Hákonardóttur hæstaréttardómara, að teldi nefndin sig knúna lögum samkvæmt að gefa út slíkt álit væri það vegna laga, sem væru barn síns tíma. Séu þau orð mín skoðuð í ljósi þess sem Ögmundur segir nú um hæstarétt var um barnaleik að ræða af minni hálfu. Jafnréttislögin hafa verið tekin til endurskoðunar og enginn man lengur eftir kærunefnd jafnréttismála. Við Hjördís komumst að samkomulagi og síðar var hún skipuð í hæstarétt. Að Ögmundur hlaupi í þetta skjól til að skjóta sér undan ábyrgð á ógildum kosningum sýnir aðeins hve vondan málstað hann hefur að verja.

Hér skal ítrekað, að Ögmundur hefði mestan sóma af því að segja af sér. Hann ber pólitíska ábyrgð á því að hæstiréttur gat ekki annað en ógilt kosningar sem til hans voru kærðar.