30.1.2011

Sunnudagur 30. 01. 11.

Í gærkvöldi var þorrablót Fljótshlíðinga í Goðlandi. Hvert sæti var skipað en salurinn tekur 220 manns í sæti. Var gerður góður rómur að skemmtiatriðum sem að þessu sinni voru undirbúin af íbúum á innstu bæjunum í hlíðinni. Anna Runólfsdóttir í Fljótsdal, innsta bænum, var kynnir og brá einnig um myndum og sagði frá. Hún nefndi meðal annars fjallakind sem ekki hefði náðst til byggða árum saman og gall þá í einhverjum: Er þetta ekki rollan hans Bjössa?

Þeir sem fylgst hafa með sögum af sauðfé mínu hér á síðunni minnast þess kannski að í sumar sagði ég frá því að ein kinda minna hefði ekki náðst af fjalli árum saman, í þrjá vetur ef ég veit rétt. Hún brá sér hins vegar til byggða undan öskunni í sumar og dvaldist í góðu yfirlæti hjá Viðari, nágranna mínum á Hlíðarbóli. Var hún með öðrum ám í hólfi í kringum fjárhús við bæinn, fór í hús þegar hún vildi og var hin gæfasta, þar til hún tók allt í einu á rás til fjalla og ekkert fékk stöðvað hana. Hún skildi meira að segja lambið sitt eftir þegar hún stökk yfir síðustu girðinguna í byggð.

Í haust sást hún í fjöllunum fyrir norðan Þórólfsfell og Fljótsdal en hljóp frá mönnum þegar þeir reyndu að ná henni. Í morgun þegar Anna í Fljótsdal fór að vitja að fé sínu í húsum og við hús rétt við bæinn sá hún ána sem hún hafði nefnd í þorrablótinu kvöldið áður. Nú lagði hún ekki til fjalla við mannaferðir heldur hljóp inn í fjárhús, þegar Anna opnaði hlið á girðingunni.

Ókum við Viðar Pálsson í Hlíðarbóli og Ásgeir Tómasson í Kollabæ síðdegis inn að Fjalla til byggðaFljótsdal og náðum í kindina. Þau sögðu okkur að í Fljótsdal væri forystufé og mín væri af þeim stofni, enda keypti ég hana sem lamb af Runólfi bónda á sínum tíma. Nú settum við hana í bíl og ókum sem leið lá að fjárhúsinu á Hlíðarbóli, þar sem ærin er nú í góðu yfirlæti. Vakti hún sérstakan áhuga hrútsins þegar hún birtist. Á myndinni heldur Viðar bóndi í hornið á gripnum. Ég þarf að finna á hana gott nafn en hún var tiltölulega vel á sig komin.

Okkur var öllum létt yfir því að loksins tókst að handsama kindina og koma henni undir mannahendur. Við fréttir af því að kindin er komin í hús ætti einnig fleirum að vera létt, því að margir vaskir menn hafa í áranna rás lagt á sig mikið erfiði í viðleitni við að ná ánni. Hvort hennar verður oftar minnst á þorrablóti á eftir að koma í ljós. Við skulum vona að koma hennar til byggða sé ekki fyrirboði nýrra eldsumbrota.

Í kvöld klukkan 20.00 fór ég á tónleika Kammersveitar Reykjavíkur í Listasafni Íslands.