28.1.2011

Föstudagur 28. 01. 11.

Hér má sjá samtalsþátt okkar Ólafs Þ. Harðarsonar á ÍNN miðvikudaginn 26. janúar. Í fyrri hluta þáttarins ræddum við um ákvörðun hæstaréttar um að ógilda kosningarnar til stjórnlagaþings. Í seinni hlutanum fræddist ég um embætti Ólafs sem forseta félagsvísindasviðs Háskóla Íslands. Skipulagi háskólans var gjörbreyttt á árinu 2008.

Lokaspurning mín snerist um þátttöku háskólamanna í opinberum umræðum og hvort þeir kæmu fram sem óháðir eða málsvarar ákveðinna flokka eða hagsmunahópa. Ólafur svaraði skilmerkilega eins og hans var von og vísa en tíminn leyfði ekki viðbrögð mín við svari hans.

Réttilega sagði Ólafur að prófessorar við Háskóla Íslands hefðu verið í framboði fyrir stjórnmálaflokka samhliða kennslustörfum. Þetta hefur til dæmis verið hefð við lagadeild Háskóla Íslands fram til þess að Gunnar G. Schram var þar prófessor og þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Ég sé ekkert athugavert við að prófessorar eða kennarar háskólans séu virkir þátttakendur í starfi stjórnmálaflokka, tel það raunar æskilegt, hafi þeir tök og tíma til þess. Hitt er fráleitt að til þeirra sé leitað í fjölmiðlum sem óhlutdrægra fræðimanna um þau efni sem snerta hin pólitísku baráttumál sem þeir hafa helgað sér.